136. löggjafarþing — 37. fundur,  27. nóv. 2008.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

180. mál
[14:28]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Kristni H. Gunnarssyni. Þeim þótti tekið stórt upp í sig að hér væri sett á laggirnar nefnd sem ætti að leita hins eina stóra sannleika eða eins og segir í 1. gr.:

„Tilgangur laga þessara er að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis leiti sannleikans um aðdraganda og orsök“ o.s.frv.

Ég deili þeirri skoðun með þeim þingmönnum sem ég vitnaði til að það hefur aldrei verið sérstaklega farsælt í mannkynssögunni þegar menn hafa gefið sig út fyrir það að sitja sjálfir uppi með eina stóra sannleika. (Gripið fram í: Við leitum hans.) Já, öll leitum við hans og svo er annað mál að sannleikurinn getur litið út með ýmsum hætti eftir því úr hvaða átt hann er skoðaður. Ég skil þetta svo að þarna sé verið að tala um að nefndin leiti upplýsinga og skýringa á aðdraganda og orsökum bankahrunsins. En þetta er kannski ekki stærsta málið. Kallað hefur verið eftir rannsóknum af þessu tagi og ég minni á að nú þegar er búið að leggja fram frumvarp í þinginu, sem vonandi verður afgreitt á allra næstu dögum, um skipan sérstaks saksóknara sem á að kanna hvort um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða í þessu ferli öllu. Til viðbótar kemur svo þetta frumvarp til laga um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna. Ég flyt forseta þingsins að sjálfsögðu bestu þakkir fyrir frumkvæðið sem hann hefur sýnt í þessu máli og jafnframt færi ég formönnum stjórnmálaflokkanna þakkir fyrir að hafa haft samstöðu um framlagningu málsins.

Ég tel tvennt í þessu sem sérstaklega er vert að vekja athygli á og fagna. Annars vegar það að Alþingi hefur frumkvæði að rannsókn af þessu tagi. Það var upplýst fyrr í umræðunni að slík rannsóknarnefnd hafi ekki verið sett á laggirnar síðan 1955. Í stjórnmálaafskiptum mínum hef ég oft og tíðum gagnrýnt að þingið hafi ekki beitt sér sem skyldi í að hafa frumkvæði að því að rannsaka tiltekin mál sem upp hafa komið í þjóðfélaginu og hef gjarnan viljað að þingið léti meira til sín taka á þeim vettvangi og hefði vald og ráðrúm til að hefja sjálfstæðar rannsóknir á hinum ýmsu málum. Þetta er líka heimilt samkvæmt 39. gr. stjórnarskrárinnar en um leið og ég segi það er ég sammála þeirri aðferð sem hér er notuð, að í stað þess að þingmenn sjálfir setjist í sérstaka rannsóknarnefnd séu kallaðir til aðrir hæfir einstaklingar eins og kveðið er á um í 1. gr. þessa frumvarps. Ég tel að það sé afar mikilvægt að náðst hafi samstaða í Alþingi um þessa rannsókn og þessa aðferð og ég held að þetta styrki Alþingi og störf alþingismanna. Á hinn bóginn fagna ég því líka að náðst hefur samstaða á milli stjórnmálaflokkanna og foringja þeirra um að fara þessa leið. Á þá samstöðu hefur því miður skort í því umróti sem verið hefur undanfarna daga og ég tel það vera mikinn ljóð á störfum okkar á Alþingi og það sé ekki gott fyrir ástandið, hvorki stjórnmálaástandið né þjóðfélagsástandið, að fiska í gruggugu vatni og að hér sé hver höndin upp á móti annarri. Nú erum við komin með aðgerðaáætlun sem snýst um það að reyna að bjarga okkur út úr þessum ógöngum og ég held að sú aðgerðaráætlun sé svo mikilvæg að við þurfum öll að snúa bökum saman, þjappa okkur saman og standa sem einn maður á bak við þessa áætlun og að hún takist. Það er nánast upp á líf og dauða að mínu mati.

Enginn stjórnmálaflokkur hefur hag af því að fiska í gruggugu vatni eða hrista upp í óróa, ótta og óvissu í þjóðfélaginu. Það hefur enginn flokkshagsmuni af því og það verður engum til góðs þegar fram í sækir að ýfa upp slíkt andrúmsloft í þjóðfélaginu. Gagnrýnin og reiðin sem við verðum vör við í þjóðfélaginu beinist ekki einvörðungu að hæstv. ríkisstjórn eða stjórnarflokkunum per se, hún er út í alla ráðamenn þjóðarinnar, út í Alþingi, út í stjórnmálaflokkana vegna þess að þar er engin samstaða og það virkar svo að vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri er að gera. Sú aðgerðaáætlun sem nú liggur fyrir verður að nást fram og um hana verður að vera samstaða og fylgja trú, traust og von sem við þurfum ekki aðeins að byggja upp hjá okkur sjálfum heldur þjóðinni allri. Með því verða stjórnmálaflokkarnir og fulltrúar þeirra á Alþingi ásamt ríkisstjórn og Seðlabanka og öllum sem að því koma og eru í ábyrgum stöðum að leggjast á eitt til að ná árangri. Ég held að þetta mál sé kannski fyrsta skrefið í þá átt og það sé viðleitni og viðnám sem við eigum að meta og við eigum að feta okkur áfram á þessum vegi næstu daga og vikur. Ég held að sú aðgerðaáætlun sem ég er að tala um, og vísa þá til samningsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í þær áætlanir sem núna standa fyrir dyrum, sé upphafið á ákveðinni endurreisn og það mál sem hér er til umfjöllunar er liður á þeirri vegferð.

Við frumvarpið sem slíkt geri ég engar stórar athugasemdir. Ég skil það svo að þetta sé samkomulag og sátt milli flokksforingjanna og ætla ekki að gera tillögur um stórvægilegar breytingar á þessu plaggi. Ég vil hins vegar ítreka að ég held að þessi rannsókn þurfi líka að taka til þess tímabils þegar bankarnir voru einkavæddir og hvernig staðið var að henni. Ég tel að það sé alveg tvímælalaus þáttur í því sem gerðist.

Hér var líka talað um að gjafakvótinn hefði á sínum tíma haft veruleg áhrif í fjármálalífinu og ég er reyndar þeirrar skoðunar og held að vel megi flétta það inn í orsakir og afleiðingar af þeirri þróun sem við höfum upplifað á síðustu árum.

Ég held að kannski sé lögð of mikil áhersla í frumvarpinu á hina lagalegu hlið, hvort það sé lagalega rétt staðið að hlutunum eða rangt, vegna þess að málið er auðvitað miklu flóknara sem snýr bæði að pólitík og siðferði. Niðurstaðan gæti, strangt til tekið, ef maður lítur til þeirra öfga hugsanlega orðið sú við rannsókn þessarar nefndar og þessara manna að ekkert ólöglegt hafi verið gert, alls staðar hafi verið farið rétt að lögum. Það gæti hugsanlega orðið niðurstaðan. Menn hafa bara allir verið að spila á kerfið samkvæmt þeim lögum eða lagaleysi sem ríkt hefur á þessu tímabili. Það er eins og sagt var og frægt, þetta getur verið löglegt en það getur líka verið siðlaust. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að hinn siðferðilegi þáttur málsins sé rannsakaður engu að síður. Ég geri mér grein fyrir því að það verður aldrei niðurstaða um að það sé einhverjum ákveðnum stjórnmálaflokki eða stjórnmálastefnu út af fyrir sig að kenna hvernig fór en við erum kannski ekki að kalla eftir slíkum niðurstöðum út úr þessari rannsókn. Það kemur svo síðar. Hér hefur stundum verið talað um hvítbók en þetta mál má undir engum kringumstæðum verða hvítþvottur.

Ég legg áherslu á að sú skýrsla sem hér er verið að leggja til að verði unnin verður enginn endapunktur í þessu máli. Þetta verður samantekt á upplýsingum, ferli málsins, orsökum og afleiðingum, af hverju þetta gerist en ekki hitt en niðurstaðan verður auðvitað sú að það er pólitískur dómur þjóðarinnar sem fæst af þessu máli öllu. Ég vona að rannsóknin leiði til þess að við getum bætt regluverk, lög og eftirlit og alla slíka innviði, að hægt sé að benda á veilur í regluverki og lögum og það sé kannski fyrst og fremst bent á aðgerðaleysi frekar en einhverjar aðgerðir.

Herra forseti. Ég fagna því að þetta mál er nú komið til meðferðar á þinginu og þakka enn og aftur fyrir það frumkvæði sem menn hafa sýnt undir forustu forseta Alþingis um að flytja málið inn í þingið og treysti því, enda ekki að heyra annað á málflutningi manna en að undir það sé tekið, að málið fái hraða og góða afgreiðslu.