136. löggjafarþing — 38. fundur,  28. nóv. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[01:34]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Eins og málið lítur út fyrir mér, eftir þessa umræðu sem verið hefur í dag um það, eru helstu álitamálin tvö eða þrjú. Í fyrsta lagi þarf að skoða lögfræðina í málinu, hvort hinar lögfræðilegu mótbárur Íslendinga séu það vel rökstuddar að það sé stætt á þeim og það þarf að skoða lögfræðilegar álitsgerðir frá hendi þeirra sem við vorum að semja við. Ef niðurstaðan af slíkri athugun er sú að það sé mjög ólíklegt að okkar túlkun á lögunum standist lögfræðilega er til lítils að berja höfðinu við steininn og halda uppi þrætu við Evrópusambandið og Breta og Hollendinga. Þetta er hlutur sem verður að skoða og afstaða til málsins hlýtur m.a. að velta á mati á þessum þætti málsins.

Í öðru lagi sýnist mér að skoða þurfi möguleikana á aðgerðum af hálfu Evrópusambandsins eða Breta ef ekki yrði samið við þá vegna þess að staðan virðist hafa verið komin þannig að Íslendingar áttu kost á því að semja ekki. Við í utanríkismálanefnd þurfum að fá nokkuð gott yfirlit yfir þá möguleika. Hæstv. utanríkisráðherra nefnir að Bretar hafi átt ýmsa kosti og m.a. að grípa til aðgerða á grundvelli EES-samningsins. Þetta þarf þá að fara yfir í nefndinni og fulltrúar utanríkisráðuneytisins og þingið sjálft þarf að skoða hvaða möguleikar voru í þessari stöðu og hvað leiddi af þeim þannig að menn geti borið það saman, afleiðingarnar af því annars vegar að semja og hins vegar að semja ekki. Ég held að þetta sé algjörlega nauðsynlegt að draga fram, virðulegi forseti, þannig að þjóð og þing geti lagt mat á staðreyndir mála.

Ég veit svo sem ekki nákvæmlega hvaða kosti Bretar eða Evrópusambandið áttu í því, hugsanlega að segja upp EES-samningnum eða setja einhverjar refsiaðgerðir. Þá þarf bara að skoða það. Það þarf líka að upplýsa, virðulegi forseti, hvort því var hótað í viðræðunum við Íslendinga að slíkum aðgerðum yrði beitt. Það kom ekki fram í máli hæstv. utanríkisráðherra áðan að því hefði verið beitt í viðræðunum, hins vegar sagði ráðherrann að þetta væri möguleiki sem gagnaðilinn hefði á sinni hendi. Ég held að það væri nauðsynlegt að fá upplýsingar um það hvort Bretar hafi orðað það og látið það koma fram í viðræðum við Íslendinga að þeir mundu fara þessa leið eða þær leiðir sem væru færar og eru færar í sambandi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Þetta þarf að mínu viti, virðulegi forseti, að draga fram í þinglegri meðferð málsins þannig að hægt sé að leggja mat á það í heild sinni því að það hlýtur að vera meginmarkmiðið að velja þá leið sem hefur minnst tjón eða minnstan skaða í för með sér fyrir hagsmuni okkar. Það hlýtur að vera málið, virðulegi forseti, sem alþingismenn hljóta að hafa að leiðarljósi.