136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:53]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þessi umræða hefur nú staðið alllengi og margir tekið til máls eins og eðlilegt er þegar svo stórt mál er til umfjöllunar eins og reyndin er hér. Kannski er búið að segja um það bil allt sem segja þarf í þessu stóra máli. Engu að síður ætla ég að segja eitthvað til viðbótar. Ég endurtek kannski að einhverju leyti það sem ég hef áður sagt því að málið er náttúrlega margrætt.

Ég vil ítreka það, sem hefur reyndar komið fram áður, að afstaða okkar framsóknarmanna er sú að við viljum fara í þetta samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og teljum það mikilvægt en það mál sem hér er til umfjöllunar gengur út á að heimila ríkisstjórninni að leiða til lykta mál Íslands gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hvað varðar fjárhagslega fyrirgreiðslu.

Það er svo annað mál hvort við treystum okkur til að styðja málið, þingsályktunartillöguna sem hér er til umfjöllunar, og það gerum við ekki og munum sitja hjá við lokaafgreiðslu hennar. Ástæðan er sú að við höfum ekki fengið tækifæri til að fylgjast með málinu á öllum stigum og höfum ekki fengið upplýsingar á öllum stigum þess. Við höfum reyndar mjög miklar efasemdir um að hæstv. ríkisstjórn hafi haldið rétt á málum í sambandi við samskipti við aðrar þjóðir, t.d. má nefna málið sem verður hér til umfjöllunar síðar í dag og varðar Icesave.

Ég er sannfærð um að við hefðum ekki átt möguleika á því að fá lán frá öðrum seðlabönkum án þess að eiga í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Meira að segja Norðmenn, sem voru okkur þó mjög velviljaðir í þessu máli — ég heyrði seðlabankastjóra Noregs segja á fundi með fjárlaganefnd norska þingsins að lánveitingar frá Noregi væru ekki til umræðu nema Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi að málum. Það þýðir ekki að fara í felur með það að þannig var staðan. Ég tel því mikilvægt að eiga í þessu samstarfi sem vissulega er ekkert einfalt, margt af því sem kemur fram í samstarfsyfirlýsingunni er erfitt okkur Íslendingum. Það eru erfiðir tímar fram undan, ekki er nokkur vafi á því.

Ég vil ekki vera það svartsýn að trúa því að við náum okkur ekki á strik, Íslendingar, að við komumst ekki í gegnum þetta. Auðvitað komumst við í gegnum þetta. Það þýðir ekki að horfa á þetta öðruvísi. En það er vandasamt og þess vegna er erfitt að vera jafnsannfærður og ég er um að stjórnarsamstarfið gengur ekki vel. Ríkisstjórnin sem situr er ekki trúverðug og það gerir málið enn erfiðara. Samstarfið við Seðlabankann er heldur ekki með þeim hætti sem eðlilegt væri, það kemur fram hér á hv. Alþingi nánast daglega þegar átök eru augljós á milli ríkisstjórnar, eða að minnsta kosti annars stjórnarflokksins og Seðlabankans. Ég ætla ekki að taka afstöðu með neinum í því máli í ræðu minni, en ég ítreka þetta.

Ég er ekki þeirrar skoðunar að sú leið sem borin hefur verið á borð af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að hægt sé að leysa mál Íslands, eins alvarleg og þau eru, án þess að taka nokkur lán, gangi upp. Ekki ef stefnan er ekki sú að við einangrum okkur algjörlega, Íslendingar, og höldum þeim gjaldeyrishöftum sem sett voru á þjóðina með nýlegri löggjöf. Ég trúi því og vona að sú löggjöf sé einungis tímabundin og að við munum geta horft fram á betri tíma í þeim efnum — að við séum þjóð á meðal þjóða og eigum í frjálsum viðskiptum við aðrar þjóðir. Það er náttúrlega gríðarlega mikilvægt að það geti orðið. En skortur er á framtíðaráætlunum og framtíðarsýn og skortur á því samstarfi sem ég nefndi áðan sem gerir það m.a. að verkum að við framsóknarmenn styðjum ekki málið.

Reyndar kom það fram hjá einum stjórnarsinna í þessari umræðu, hv. þm. Pétri H. Blöndal, að hann hefur áhyggjur af því að ráðuneytin séu ekki að vinna saman að lausn mála, þessara fjögurra mála sem hann nefndi hér. Það er í fyrsta lagi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, í öðru lagi jöklabréfin, í þriðja lagi Icesave og í fjórða lagi samningar við kröfuhafa.

Það er mjög alvarlegt ef ríkisstjórnin kemur ekki fram sem ein heild í þessu alvarlega máli. Það er það alvarlegasta í þessu öllu saman ef við sitjum uppi með ríkisstjórn sem vinnur ekki saman að því að leysa málin. Það segi ég, hæstv. forseti, og ítreka.

Hér hefur verið rætt um, sem eðlilegt er, hvernig við getum skapað meiri gjaldeyri, hvernig við getum skapað meiri gjaldeyristekjur og hvernig við getum sparað gjaldeyri, það er líka hluti af málinu. Hæstv. forsætisráðherra sagði í einhverri ræðu sinni á hv. Alþingi að það þyrfti að framleiða, framleiða, framleiða. Ég vildi að ríkisstjórnin væri að hugsa um að framleiða, framleiða og framleiða, (Gripið fram í.) — það birtist ekki þjóðinni eða hv. Alþingi í gjörðum hennar.

Ýmsir möguleikar eru í sambandi við það að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Það eru möguleikar í þessum gömlu og góðu greinum sem eru nú aftur í hávegum hafðar, og er ég þá að tala um sjávarútveg og landbúnað. Ég mun óska eftir því mjög fljótlega að eiga viðræður hér á hv. Alþingi við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um þær hugmyndir sem uppi eru í ráðuneyti hans í sambandi við slíka verðmætasköpun — ég hef þó grun um að ekki sé mikið verið að gera þar frekar en annars staðar í þeim efnum.

Svo er það mál sem við kvíðum öll og vitum ekki hvernig á að komast í gegnum — eða alla vega ekki við sem erum í stjórnarandstöðunni, við fáum ekki að sjá mikið af fjárlagafrumvarpinu sem verið er að semja einhvers staðar úti í bæ — og það er sá niðurskurður á fjárlögum sem fyrir liggur að þarf að fara í.

Þá hefði nú kannski komið sér vel ef hæstv. ríkisstjórn hefði ekki verið alveg svona glannaleg í fjárlagagerðinni fyrir ári þegar hún jók útgjöldin um hátt í 20% á þenslutímum sem þá voru. Hefði það ekki verið gert hefði þetta verið aðeins léttara í dag. En þetta er staðreyndin, þetta var gállinn á hæstv. ráðherrum og hæstv. stjórnarsinnum fyrir ári, bara moka peningum út úr ríkissjóði. Það var svo mikið til eftir góða tímabilið, eftir að Framsóknarflokkurinn hafði verið í ríkisstjórn í tólf ár.

Á þeim tíma lögðu menn hart að sér við að greiða niður skuldir ríkissjóðs og vera nokkurn veginn með hreint borð þegar gengið yrði til kosninga vorið 2007. Það er heldur betur búið að sverta þá ímynd lands og þjóðar með þessu óskapamáli sem við fjöllum um núna. Ég tel ekki ástæðu til að fara í þessari umræðu ofan í hið mikla bankahrun, ég held að við verðum að einbeita okkur að því að tala um hvernig við ætlum að leggja okkur fram um að komast út úr því.

Hæstv. forseti. Koma mun fram tillaga um að vísa þessu máli aftur til ríkisstjórnarinnar og að hafnar verði nýjar viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og mun ég ekki styðja þá tillögu. Ég tel að miðað við það sem blasir við okkur verði að horfa fram á við og halda áfram að vinna að hlutunum eins og þeir blasa við núna. Við eigum ekki annan kost þó að ég haldi til haga því sem ég hef áður sagt um það hvernig staðið hefur verið að málum — ég hef ýmislegt út á það að setja.

Sú ákvörðun sem tekin var í gær, að fleyta krónunni, hefur komið til umræðu — reyndar er ekki hægt að tala um fleytingu vegna þess að mikil höft eru í gangi og það eru í raun vöruskiptin ein sem mæla krónuna. Það er ánægjuefni að hún skuli þó hafa styrkst og kannski er það einhver vísbending um að hún geti haldið áfram að styrkjast, en það er óljóst hvað mun gerast þegar henni verður gefið algjört frelsi á nýjan leik.

Þá erum við komin að því sem var mjög mikið uppi í umræðunni, í ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals — hann er ákaflega sár og honum er mikið niðri fyrir út af því sem hann talar um sem kúgun gagnvart Íslandi og talar þá eingöngu um Evrópusambandið. Að Evrópusambandið hafi kúgað Ísland og Evrópusambandið hafi komið málum þannig fyrir að við áttum engan kost í sambandi við lántöku hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum öðruvísi en að semja um Icesave.

Ég vil halda því til haga að það voru ekki bara Evrópusambandslönd sem voru þeirrar skoðunar að Ísland hefði ekki lagalegar forsendur fyrir rökstuðningi sínum í sambandi við þetta mál. Það voru líka vinaþjóðir okkar í EFTA og það voru líka Norðurlandaþjóðirnar sem ekki eru í Evrópusambandinu. Staða okkar var því algjörlega vonlaus í þeim viðræðum og í þessu ströggli öllu. Ég undrast, eins og ég hef áður látið koma fram, að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki hafa talið það einnar messu virði að taka sér túr til London og tala við kollega sinn þar augliti til auglitis. Það var ekki gert heldur talaði hann eingöngu til hans héðan úr ráðherrabústaðnum og taldi að það væri líklegt til árangurs.

En staðan er sú að íslenska ríkisstjórnin þurfti að gefa eftir og það er eins og það er. Ég tel að hv. þm. Pétur H. Blöndal sé, í pólitískum tilgangi, að tengja það Evrópusambandsþjóðunum einum hvernig þeim málum lyktaði.

Hv. þingmaður, sem er því miður ekki hér í salnum, hefur miklar áhyggjur af því hvernig við komumst út úr því ástandi sem jöklabréfin hafa skapað okkur. Þó að þau hafi verið dásömuð á þeim tíma sem þau urðu til eru þau vissulega eitt af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í dag. En hvers vegna varð þessi möguleiki til? Það er vegna þess að gjaldmiðillinn, sem við Íslendingar notum, og höfum verið að nota í gegnum tíðina, hefur skapað okkur gríðarleg vandræði. Það hljóta allir að sjá að ekki er framtíð í því að halda þessum sjálfstæða gjaldmiðli á innri markaði Evrópu þar sem fjármagnið flæðir frjálst. Ég vonaðist til að hv. þingmaður mundi kannski ljúka máli sínu með því að láta einhver orð falla um það að við yrðum að taka upp nýja hætti í sambandi við gjaldmiðilsmálin en þau orð voru ekki látin falla af hans hálfu.

Af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er kominn hér í salinn, og hefur eflaust verið einhvers staðar nálægt, þá er það alveg hárrétt, sem fram kom hjá honum, að það er ekkert gleðiefni að þurfa að efna til þeirrar miklu lántöku sem hér um ræðir. Ég held að allir hljóti að vera sammála um það. Engu að síður erum við í stöðu sem við gátum aldrei ímyndað okkur að við lentum í, Íslendingar, ég held að ekki sé of djúpt í árinni tekið.

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn munum sitja hjá við lokaafgreiðslu þessa máls, m.a. vegna þess að Alþingi hefur ekki fengið tækifæri til að fjalla um það eins og skyldi og við höfum ekki verið upplýst eins og við teljum að eðlilegt hefði verið, þ.e. að stjórnarandstaðan hefði fengið miklu meiri upplýsingar og oftar og þéttar en raun ber vitni. Engu að síður, úr því sem komið er, tel ég að fara eigi þessa leið og að ekki eigi að tefja málið.