136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:08]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er til afgreiðslu og meðferðar, að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta áform um fjárhagslega fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli fyrirliggjandi viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda, kemur hingað með þeim hætti að stjórnarandstaðan hefur haft fá tækifæri — og hafði varla tækifæri til þess að gera sér grein fyrir því hvað um væri að ræða fyrr en menn standa frammi fyrir orðnum hlut. Fyrir liggur viljayfirlýsing um áform íslenskra stjórnvalda vegna fjárhagslegrar fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er fylgiskjal með þingsályktunartillögunni. Á engum stigum var stjórnarandstöðunni veitt tækifæri til þess að koma að þeim skilmálum eða þeirri viljayfirlýsingu sem þarna er um að ræða sem skiptir þó gríðarlega miklu máli hvað varðar efni málsins.

Það skiptir því máli hvernig við tökum á okkar málum varðandi hluti eins og t.d. kveður á um í tölulið 11 í þeim skilmálum sem þarna er um að ræða þar sem verið er að tala um að fara yfir lagarammann um gjald- og greiðsluþrot þannig að taka megi á niðurfærslu skulda og heimtu eigna í bönkum, fyrirtækjum og hjá heimilum.

Það er í sjálfu sér allt góðra gjalda vert en þarna vantar algjörlega allt holdið á beinin vegna þess að ekki er gerð grein fyrir því með neinum hætti hvað er verið að tala um. Hér er eingöngu um orð að ræða án þess að nokkuð fylgi og enn þá liggur ekkert fyrir um það atriði.

Hæstv. forsætisráðherra hefur ítrekað talað um það, og jafnframt hæstv. utanríkisráðherra og félagsmálaráðherra, að til standi að leggja fram lagafrumvarp um greiðsluaðlögun eða breytingu á gjaldþrotaskiptalögunum en ekkert liggur fyrir um það eða hvernig það á nákvæmlega að vera. Það skiptir að sjálfsögðu máli varðandi skilyrðið sem hér er um að ræða.

Í annan stað er talað um að brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands sé að tryggja stöðugleika krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins. Hægt er að taka undir þau sjónarmið og fátt skiptir meira máli en einmitt að styrkja gengi krónunnar. Þá tek ég undir þau sjónarmið og rök sem hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kom með í ræðu sinni áðan varðandi þann gjaldmiðil sem við erum með. Að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil í minnsta myntkerfi í heimi er verulega mikil áhætta. Miðað við það sem við höfum gengið í gegnum og fengið að reyna liggur ljóst fyrir að það er of mikil áhætta. Brýna nauðsyn ber til að gera sem fyrst breytingar þannig að við getum tengst öðrum gjaldmiðli eða hreinlega tekið upp annan gjaldmiðil.

Við í Frjálslynda flokknum höfum flutt tillögu um að við skoðum hvort hægt sé að leita leiða til samninga við Norðmenn og við aðra aðila varðandi að tengja krónuna til skemmri tíma við annan gjaldmiðil til að tryggja aukinn stöðugleika og festu.

En vandamálið er einmitt það að þegar við erum með gjaldmiðil í minnsta myntkerfi heims á frjálsum markaði ræðst daggengi hans af geðþóttaákvörðunum jafnvel tiltölulega lítilla fjárfesta. Það er það sem við höfum mátt þola og horft framan í. Iðulega hefur verið talað um að ákveðnir aðilar hafi tekið stöðu gegn krónunni og þannig kann það að vera. Í heimi græðgi og mammonsdýrkunar reyna þeir sem sjá sér hagnaðarvon að nýta sér það og hafa hagnað af þótt með því sé verið að verðfella krónu eða einhvern annan gjaldmiðil með einum eða öðrum hætti.

Það eru bara hinar köldu staðreyndir sem menn ættu að þekkja. Við höfum fengið þá reynslu sem gerir það að verkum að nú þegar verður að hrinda af stað metnaðarfullri áætlun til þess að hverfa frá því að vera með þá mynt sem við höfum. Við þurfum að hafa mynt sem hægt er að treysta, hvort sem um er að ræða í skammtímaviðskiptum eða langtímaviðskiptum, afnema verðtryggingu og önnur óeðlileg höft og kvaðir í íslenskum lánamálum þannig að fólkið og fyrirtækin í landinu geti haft eðlilega fyrirgreiðslu, vexti og lánakjör.

Í öðrum hluta þess sem kemur fram í fyrirvörunum er talað um að hækka stýrivexti í 18%. Þar er um að ræða viljayfirlýsingu sem er sett fram án nokkurs atbeina eða aðkomu Alþingis eða stjórnarandstöðunnar. Talað er um að hækka stýrivexti út yfir öll þau mörk sem eðlileg geta talist upp í 18%, svo háa stýrivexti að fyrirtækin í landinu og fólkið í landinu eiga sér tæpast lífsvon ef þau þurfa að njóta fyrirgreiðslu lánastofnana.

Eitt af því sem öðru fremur olli því hruni sem við höfum horft upp á á undanförnum mánuðum á bönkum og í efnahagslífi þjóðarinnar er hvernig Seðlabanki Íslands hagaði stýrivaxtastefnu sinni og gerði það að verkum með óábyrgri stýrivaxtastefnu að knýja á um í fyrsta lagi að einstaklingar og fyrirtæki leituðu eftir því að fá lánafyrirgreiðslu erlendis og að hleypa inn gríðarlegu innstreymi peninga í formi svokallaðra jöklabréfa. Það hafði í för með sér að við fluttum inn hundruð milljarða á ári í formi erlendra skulda með jöklabréfum, út vexti sem skapaði gríðarlega þenslu — yfirgengilega falska þenslu í landinu sem engin innstæða var nokkru sinni fyrir og aðflutning erlends vinnuafls. Það er því óráðsferð að halda áfram á þessari braut með stýrivexti í Evrópumeti og með gjaldmiðil sem hefur ekki staðið undir væntingum og ekkert traust er bundið við.

Ég lít þannig á að með því að fara þá leið sem getur verið um að ræða, að fá fjárhagslega fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, séum við í raun að hefja nokkuð nýja vegferð í íslensku efnahagslífi þar sem við verðum að viðurkenna að efnahagsstjórn landsins, hvort sem er á höndum ríkisstjórnar eða Seðlabanka, hefur gjörsamlega brugðist.

Ég get tekið undir sjónarmið þeirra ræðumanna sem talað hafa í dag að eðlilegast væri að þeir sem bera ábyrgð á efnahagsstjórninni til lengri og skemmri tíma, vikju og aðrir kæmu í þeirra stað til þess að vinna úr þeim vandamálum sem við er að eiga, þeim vandamálum sem stjórnendur Seðlabanka og ríkisstjórn og ríkisstjórnir undanfarinna ára bera alla ábyrgð á. Það eru því ýmis slæm teikn, þessir aðilar ætla enn að halda um stjórnvölinn sem valda því að ég sé, svo að maður noti orðalag hæstv. utanríkisráðherra, ýmsa váboða því tengdu að þiggja fjárhagslega fyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Hvað svo sem má um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn segja og það hvernig sá sjóður stýrir málum er alveg ljóst að hann getur ekki komið að eða stýrt málum sem tengjast efnahagslífi þjóðarinnar verr en þeir hafa gert sem haldið hafa um stjórnartaumana á undanförnum árum. Það er enginn sem getur stýrt málum verr en sá aðili sem keyrir í þrot, aðrir geta kannski ekki stýrt betur vegna þess að það er enginn möguleiki fyrir hendi varðandi reksturinn. En það er enginn sem getur stýrt málum verr en sá sem keyrir reksturinn í þrot, hvað þá heilt þjóðfélag sem fyrir ári síðan var haldið fram að væri þjóðfélag sem væri eitt af ríkustu þjóðfélögum í heimi og gæti og ætti mest og best fyrir sig að leggja. Það er með endemum, miðað við hvað við erum dugleg og vel menntuð þjóð, að ekki sé hægt að halda þannig um stjórnvölinn að framfarasókn þjóðarinnar geti verið með eðlilegum hætti.

Spurningin er þá þessi: Hvaða kosti eigum við? Eigum við þá kosti í stöðunni núna miðað við það stjórnleysi og þær staðreyndir sem liggja fyrir að hafna þessari tillögu um fjárhagslega fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða erum við tilneydd til þess að fá þessa fyrirgreiðslu? Því miður tel ég stöðuna vera þannig að það illa hafi verið haldið um málin að við erum tilneydd til þess að taka þessa fyrirgreiðslu. Við í þingflokki Frjálslynda flokksins gerum ákveðna fyrirvara varðandi gengismál eins og ég vísaði til og bendum á nauðsyn þess að komið verði á eðlilegri skipan í þeim málum eins og ég hef rakið.

Í annan stað varðandi stýrivexti sem nauðsynlegt er að komið verði í eðlilegt horf. Á meðan seðlabankar allra landa í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum lækka stýrivexti jafnvel niður í 1% eða undir það að gengur ekki að við séum ein þjóða með miklu hærri stýrivexti. Það verður að eyða þeim stýrivaxtamun sem þarna er um að ræða til þess að eðlilegt samfélag geti þrifist í landinu, til þess að fyrirtækin geti blómstrað á ný og fjölskyldurnar í landinu geti búið við efnahags- og fjárhagslegt öryggi. Það eru grundvallaratriði.

Við gerum fyrirvara við þetta en við sjáum ekki að kostur sé á öðru en að samþykkja þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir miðað við þá stöðu sem nú er. Það er útilokað að við höfum yfir að ráða eðlilegum gjaldeyrisvaraforða og eðlilegt innstreymi gjaldeyris, sérstaklega miðað við stöðuna í dag, til þess að við getum haldið áfram að lifa og starfa og búa svo í haginn fyrir framtíðina sem best verður á kosið. Ég tel að það skipti gríðarlegu máli að við búum í haginn fyrir framtíðina og fáum þá fyrirgreiðslu sem um er að ræða.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði í ræðu sinni. Ég lít þó þannig á að við séum í sömu stöðu og skuldugur einstaklingur sem á möguleika á því að auka tekjur sínar, það geti verið kostur að taka lán eins og við gerum við þessar aðstæður til þess að fleyta okkur yfir tímabundna erfiðleika. Með því sér skuldarinn fram á að úr rætist og horfir á bjartari daga.

Ég tel að verði vel og rétt haldið á málum þjóðfélagsins eigi það að vera auðvelt. Þegar við tölum um hvernig hlutir hafa gengið til hjá okkur að undanförnu liggur alveg að við erum með meiri útflutning og meiri gjaldeyristekjur en eyðslu vegna innflutnings og munar þar töluverðum fjárhæðum. Það skiptir gríðarlegu máli hvernig við höldum á þeim málum á næstunni. Ég tel þó að það skipti líka máli að við reynum sem fyrst að komast út úr þeim gjaldeyrishöftum sem var samþykkt fyrir nokkru að yrðu lögð á. Til lengri tíma litið eru þau gjaldeyrishöft til þess fallin að valda enn þá meiri vandamálum í þjóðfélaginu en við búum við í dag og grafa undan möguleikum til framfarasóknar á sem skemmstum tíma. En þegar þeim gjaldeyrishöftum verður létt af verður líka að vera búið að móta trúverðuga stefnu í gjaldmiðilsmálum þannig að þjóðin viti, alla vega ríkisstjórnin — hver svo sem hún verður þá — hvert á að stefna hvað þetta varðar og verði samstiga um það.

Ég tel að úr því sem komið er liggi fyrir að fá þá fyrirgreiðslu sem hér er um að ræða og að það sé í rauninni eina leiðin sem við eigum tæka. Þess vegna sé það ábyrgðarleysi að ætla að hafna henni þótt ég leyfi mér að deila áhyggjum mínum með þeim sem talað hafa í umræðunni um hvernig til muni takast varðandi framkvæmdina miðað við hverjir halda um stjórnartaumana, að fenginni reynslu af óstjórn þeirra í efnahagsmálum.

Það er mjög slæmt þegar þjóð lendir í þeim hremmingum sem við höfum lent í að undanförnu að hvorki hún sjálf né þingið fái eðlilegar og nauðsynlegar upplýsingar um hver vandinn er raunverulega. Það kemur glögglega fram í nefndaráliti 1. minni hluta utanríkismálanefndar sem Magnús Stefánsson undirritar. Á það hefur skort að þjóðin hafi fengið upplýsingar um málin. Ef til vill er það að hluta ástæða þess að fólk er almennt óöruggt um hvert stefnir, hvert halda skuli og hver staða þeirra er og það er mjög alvarlegt.

Við í Frjálslynda flokknum munum greiða fyrir því að þingsályktunartillagan verði leidd til lykta. Við munum greiða henni atkvæði vegna þess að við teljum að samþykkt hennar sé forsenda fyrir því að þjóðin geti á ný hafið framfarasókn en við ítrekum að það skiptir máli að það séu ábyrgir aðilar sem halda um stjórnvölinn.