136. löggjafarþing — 44. fundur,  5. des. 2008.

samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu.

177. mál
[18:51]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Upptalning mín á aðdraganda Icesave-deilunnar var ekki til þess að varpa ábyrgðinni beint á Breta heldur bara að varpa ljósi á það sem við þekkjum. Hins vegar er alveg ljóst og það held ég að ég hafi tekið skýrt fram, að nánari greining mun leiða í ljós það sem við þurfum að vita. Við vitum ekki hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum. Við getum gert okkur ýmislegt í hugarlund en við vitum það ekki en ég álít að það muni koma í ljós síðar.

Ég er algjörlega viss um að við Íslendingar berum mikla ábyrgð líkt og allar þær þjóðir sem hafa lent í bankahruni áður hafa borið mikla ábyrgð. Ég rakti það í umræðunni í morgun að ferlið í bankahruni er mjög svipað í öllum þeim löndum sem ég hef skoðað, það hefur einmitt verið um að ræða aukið frelsi og að bankarnir stækkuðu of hratt, það varð til mikil eftirspurn eftir ódýrum erlendum lánum, áhættusækni varð mikil og eftirlitskerfið var miklu seinna af stað en bankarnir, auðvitað er því ábyrgðin mikil. En ég ætlaði mér ekki í þessari ræðu að fara að greina hana neitt sérstaklega, ég vildi bara varpa ljósi á stöðu okkar gagnvart Bretum. Það er líka til að brýna okkur, þeir eru kannski verðugir andstæðingar, þ.e. þegar að samningunum kemur.