136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[16:23]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki ágreining við ráðherrann um það. Það er rétt að beita þessu úrræði í ljósi vaxandi atvinnuleysis og þeirra slæmu horfa sem eru á vinnumarkaði í náinni framtíð.

Ég vek hins vegar athygli á því að ekki er beitt ákvæðum EES-samningsins, 112.–113. gr., sem gefur stjórnvöldum heimild til að takmarka aðgengi að íslenskum vinnumarkaði samkvæmt ákvæðum sem þar greinir frá. Það er ekki verið að nota þær heimildargreinar í samningnum heldur er frestað með vísan til ákvæða sem sett voru þegar þessi ríki gengu í Evrópusambandið. Þau ákvæði renna út árið 2014 í síðasta lagi. Það er mér tilefni til að spyrja — komi upp sambærilegar aðstæður þá og núna eru — hvaða úrræði íslensk stjórnvöld hafi til þess að verja stöðu íslenskra heimila. Rökstuðningur ráðherrans fyrir aðgerðum núna er sá að verja stöðu íslenskra heimila en ekki hefur verið hægt að nota neitt ákvæði til þess að takmarka aðgang inn á íslenskan vinnumarkað.

Það væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvaða úrræði hún mundi þá leggja til að yrði beitt í ljósi þess að ráðherrann telur nauðsynlegt að við göngum í Evrópusambandið.