136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[17:28]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009–2013 þar sem lagt er til að 13 svæði verði friðlýst á þessu tímabili.

Þingsályktunartillagan hefur verið unnin á grundvelli 65. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, sem kveður á um að umhverfisráðherra skuli láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið allt á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi.

Þetta er í annað sinn sem mælt er fyrir þingsályktunartillögu af þessu tagi, en gildistími fyrstu heildstæðu náttúruverndaráætlunarinnar er 2004–2008 og rennur því út í lok þessa árs.

Skipulagt náttúruverndarstarf á Íslandi nær auðvitað mun lengra aftur í tímann. Fyrstu náttúruverndarlögin voru samþykkt 1956 og mörg svæði og náttúrufyrirbæri hafa verið friðlýst síðan þá á grundvelli laga um náttúruvernd og á grundvelli sérlaga. Með heildstæðri náttúruverndaráætlun er hins vegar stefnt skipulega að því að setja upp net friðlýstra svæða sem tryggi verndun lífríkis og jarðminja sem þarfnast verndar, byggt á vísindalegum rannsóknum og kortlagningu á náttúru Íslands, greiningu á alþjóðlegum skuldbindingum og faglegu mati á verndargildi. Nú eru um 96 friðlýst svæði á landinu sem ná yfir nær 20% af flatarmáli Íslands.

Nokkur nýmæli eru í náttúruverndaráætlun 2009–2013 og má þar nefna að í fyrsta sinn er stefnt að því að friðlýsa vistgerðir annars vegar og hryggleysingja og búsvæði þeirra hins vegar. Flest svæðanna á áætluninni eru hins vegar friðlýst í því skyni að vernda sjaldgæfar plöntur og vaxtarstaði þeirra. Einnig er lagt til að friðlýstar verði 160 tegundir mosa, fléttna og háplantna sem er mesta friðun tegunda sem ráðist hefur verið í. Gerð er tillaga um eitt svæði vegna jarðfræðiminja, Langisjór og nágrenni. Það svæði verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði, en hið sama gildir um fjögur önnur svæði á áætluninni. Vatnajökulsþjóðgarður er nú þegar orðinn stærsti þjóðgarður í Evrópu og stærsta verkefni í náttúruvernd sem Íslendingar hafa ráðist í.

Nú vil ég telja upp þau svæði sem tillagan gerir ráð fyrir að friðlýsa á tímabilinu 2009–2013. Fyrst vil ég gera grein fyrir sex svæðum sem lagt er til að verði friðlýst til að styrkja friðun sjaldgæfra plöntutegunda:

Snæfjallaströnd–Kaldalón við norðanvert Ísafjarðardjúp er mikilvægt svæði fyrir margar sjaldgæfar háplöntur.

Gerpissvæðið sem kennt er við austasta tanga Íslands er þekkt fyrir sérstætt gróðurfar, en á svæðinu finnast allnokkrar sjaldgæfar háplöntutegundir. Svæðið er vinsælt til útivistar.

Tvö skógarsvæði á Fljótsdalshéraði eru á náttúruverndaráætlun, Eyjólfsstaðaskógur og Egilsstaðaskógur. Þau eru m.a. merkileg fyrir fjölda sjaldgæfra fléttna sem þrífast sem ásætur á birki, en að auki vaxa þar sjaldgæfar tegundir háplantna.

Tvö svæðanna, skóglendi við Hoffell og Steinadal í Suðursveit, er lagt til að friðlýsa sem hluta af stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs, en þau eru fyrst og fremst verndarþurfi vegna gróðurfars og sjaldgæfra plantna.

Þrjú svæði á hálendi Íslands verða friðlýst einkum vegna sérstæðra vistgerða ef áætlunin nær fram að ganga. Hvað eru vistgerðir? kann nú einhver að spyrja. Vistgerðir eru landeiningar sem búa yfir ákveðnum eiginleikum hvað varðar loftslag, berggrunn, jarðveg, gróður og dýralíf og henta mjög vel til að skilgreina svæði út frá náttúrufræðilegum forsendum og til að meta verndargildi þeirra. Þetta er í fyrsta sinn sem lagt er til að vistgerðir verði friðlýstar á Íslandi, en þau svæði sem vernda á út frá þessum forsendum eru eftirfarandi:

Hluti Skaftáreldahrauns, með því að færa út mörk Vatnajökulsþjóðgarðs, sem áður tilheyrði friðlandi umhverfis Lakagíga. Með því á að vernda svokallaða breiskjuhraunavist sem þekkist líklega ekki utan Íslands en við Íslendingar þekkjum hana sem samfelldar mosaþembur á hraunbreiðum.

Lagt er til að Orravatnsrústir verði friðaðar en þar er að finna rústamýravist og sérstæðasta freðmýrasvæði landsins.

Lagt er til að mörk friðlandsins í Þjórsárverum verði færð út þannig að það nái yfir allt votlendi veranna. Þar með mundu bætast við nokkur rústamýrasvæði sem eru utan friðlandsins, auk þess sem ákvæði stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar um verndun hins sérstæða votlendis veranna væru uppfyllt. Jafnframt yrðu friðlýsingarskilmálar þar styrktir og bann lagt við röskun innan svæðisins. Þá er æskilegt að styrkja friðun Guðlaugstungna í sama skyni.

Að auki er lagt til að ráðist verði í almenna friðlýsingu þessara tveggja vistgerða, breiskjuhraunavistar og rústamýravistar, með vísun til 53. gr. náttúruverndarlaga.

Nú er í fyrsta sinn lagt til að dýrategundir verði friðaðar samkvæmt lögum um náttúruvernd, en þar er um að ræða þrjár tegundir sjaldgæfra hryggleysingja og búsvæði þeirra. Friðlýst verði búsvæði tjarnaklukku í tjörnum á Innrihálsi í Berufirði, búsvæði bjöllutegundarinnar tröllasmiðs í Undirhlíðum í Nesjum og búsvæði snigilsins brekkubobba í hvannstóði undir Reynisfjalli.

Aðeins eitt svæði er í áætluninni þar sem áherslan er fyrst og fremst á jarðfræði. Langisjór og nánasta umhverfi hans verða friðlýst samkvæmt þingsályktunartillögunni og svæðið fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Á svæðinu gefur að finna, eins og víðar í þjóðgarðinum, einstakt samspil jarðelds og jökla við landmótun. Eldgjársprungan liggur um svæðið austanvert, en hún er lengsta gígaröð sem gosið hefur á landinu á sögulegum tíma eins og menn þekkja.

Hæstv. forseti. Þetta eru þau 13 svæði sem lagt er til að verði friðlýst á næstu fimm árum á grundvelli náttúruverndaráætlunar 2009–2013. Við val á þessum svæðum voru hafðar til grundvallar tillögur nefndar sem skipuð var fulltrúum umhverfisráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Einnig var haft samband við sveitarstjórnir á viðkomandi svæðum og landeigendur til að kanna vilja þeirra, reyndar án nokkurra skuldbindinga af þeirra hálfu. Framkvæmd friðlýsingar er eins og kunnugt er ferli sem unnið er í samvinnu við sveitarstjórnir og landeigendur og þá verður kveðið nánar á um mörk svæðanna, kvaðir sem fylgja friðlýsingunni og hvernig friðlýsingin fellur sem best að annarri landnotkun. Samkvæmt náttúruverndarlögum skiptast friðlýst svæði í fimm flokka eftir eðli, tilgangi og markmiði verndunar. Það eru þjóðgarðar, friðlönd, náttúruvætti, tegundir lífvera og búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi og fólkvangar. Í flestum tilvikum er ljóst hvaða flokka svæðin 13 falla í, svo sem þau sem felld verða inn í Vatnajökulsþjóðgarð, en í einhverjum tilvikum getur þar verið um ákvörðun að ræða í friðlýsingarferlinu. Umhverfisstofnun hefur umsjón með framkvæmd friðlýsingar í samvinnu við viðkomandi sveitarstjórnir og landeigendur.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum að framkvæmd náttúruverndaráætlunar. Ég ætla fyrst að fjalla um framkvæmd þeirrar áætlunar sem nú er að renna sitt skeið á enda og síðan hvernig náttúruverndaráætlun tengist öðru skyldu starfi, svo sem rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Eins og fram hefur komið er þessi áætlun önnur í röðinni, en fyrsta heildstæða náttúruverndaráætlunin er í gildi til loka þessa árs. Á því tímabili bar hæst stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem er ekki einungis stærsti þjóðgarður Evrópu, heldur án efa einn sá merkasti þar sem hvergi í álfunni er hægt að sjá landmótunaröflin að störfum með eins greinilegum hætti og þar. Uppbygging þjóðgarðsins hefur hafist með myndarlegum hætti og ég tel víst að hann verði hornsteinn í ferðaþjónustu og ímynd landsins í framtíðinni og að vegur hans og hróður muni vaxa enn.

Hvað önnur svæði varðar er staðan fjarri því að vera góð. Aðeins hefur verið lokið við friðlýsingu eins svæðis, Guðlaugstungna–Álfgeirstungna, af 14 á fimm árum og annað svæði, Vatnshólsskógur í Skorradal, er á lokastigi og líklega komið í auglýsingu. Mikil vinna hefur verið unnin við flest svæðanna 14 og er stefnt að því að ljúka friðlýsingu sem flestra þeirra auk hinna nýju svæða sem hér hafa verið kynnt. Ljóst er að nokkur andstaða er meðal viðkomandi landeigenda við friðlýsingu sumra svæða og einnig má spyrja hvort friðlýsingarferlið sé of þungt í vöfum eða hvort áform um friðlýsingu kalli fram neikvæð viðbrögð, e.t.v. að óþörfu. Rétt er að nefna að nokkur svæði utan náttúruverndaráætlunar hafa verið friðlýst á undanförnum árum, oft að frumkvæði sveitarfélaga sem sýnir að víða er skilningur og metnaður á sviði náttúruverndar hjá sveitarfélögunum í landinu.

Ég hyggst ræða væntanlegar friðlýsingar við sveitarstjórnir og heimamenn á næsta ári og skoða hvað hægt sé að gera til að þær gangi hraðar og auðveldar fyrir sig. Í ljósi reynslunnar tel ég líka rétt að umhverfisráðherra geri Alþingi grein fyrir framkvæmd náttúruverndaráætlunar árlega. Ég kynnti hér í haust í fyrsta sinn skýrslu umhverfisráðherra til Alþingis um umhverfismál og tel að slíkar reglubundnar skýrslur séu réttur vettvangur til að skýra frá framkvæmd náttúruverndaráætlunar.

Ég vil heldur ekki útiloka að á tímabilinu verði hægt að friðlýsa fleiri svæði en nú má finna í náttúruverndaráætlun. Það kann að ráðast af frumkvæði sveitarstjórna í einhverjum tilvikum, en einnig af öðru starfi sem unnið er undir merkjum náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar. Nú er unnið að gerð rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða þar sem raða á mögulegum virkjunarkostum eftir hagkvæmni þeirra og verndargildi viðkomandi svæða. Þegar þeirri vinnu lýkur á næsta ári gefst tækifæri til þess að skoða mögulega friðlýsingu þeirra svæða sem metin eru verðmætust út frá náttúruverndarsjónarmiðum eftir þeirri aðferðafræði sem notuð er við rammaáætlunina. Þar á m.a. að meta verndargildi háhitasvæða, en ljóst er að mörg verðmætustu náttúruverndarsvæði landsins eru háhitasvæði. Við verðum að velja hver þeirra við viljum nýta til frekari raforkuframleiðslu og hver við viljum nýta sem náttúrugersemar með verndun. Samhliða framkvæmd náttúruverndaráætlunar 2009–2013 þarf að vinna að undirbúningi þriðju áætlunarinnar og styrkja vísindalegan grunn náttúruverndar með rannsóknum og mati á verndargildi.

Hæstv. forseti. Metinn hefur verið lauslega kostnaður við framkvæmd náttúruverndaráætlunar fyrir þau 13 svæði sem áætlunin tekur til. Heildarkostnaður við áætlunina á tímabilinu er áætlaður 67 millj. kr. á verðlagi ársins 2008. Þar af er stofnkostnaður 50 millj. kr. en heildarrekstrarkostnaður er 17 millj. kr. Eykst hann á tímabilinu eftir því sem friðlýsingum vindur fram. Þannig verður árlegur rekstrarkostnaður allt að 6,5 millj. kr. á ári þegar friðlýsingum er að fullu lokið á árinu 2013 samkvæmt áætluninni. Sá fyrirvari er gerður á mati á kostnaði náttúruverndaráætlunar 2009–2013 að í kjölfar friðlýsingar má reikna með að frekari uppbyggingar sé þörf á einhverjum þessara svæða með tilliti til aðgengis, þjónustu og frekari landvörslu. Í þeim tilfellum verða lagðar fram fjárlagabeiðnir þar að lútandi.

Ég vil ítreka að þetta mat á kostnaði er miðað við að ná fram lágmarkskröfum friðunar en ekki að byggja upp viðkomandi svæði fyrir fræðslu og vaxandi útivist. Ég held að fé til náttúruverndar sé vel varið og að það muni eiga við í vaxandi mæli á komandi árum. Náttúra Íslands er sérstök og yfirgnæfandi fjöldi erlendra ferðamanna sem hingað kemur nefnir náttúruna sem helstu ástæðu heimsóknar sinnar. Náttúran er samofin þjóðarvitundinni og vernd hennar er jafnmikilvæg og vernd tungunnar og menningararfsins. Ég tel rétt að skoða hvort við getum aukið framlög til náttúruverndar með mörkuðum tekjustofni, svo sem af þeirri starfsemi sem helst nýtir náttúruverndarsvæðin eins og ferðaþjónustan gerir.

Ég tel að þar sé einfaldlega um eðlilegan viðhaldskostnað að ræða, að náttúruvernd sé grundvöllur sjálfbærrar nýtingar þeirrar auðlindar sem felst í náttúru landsins, lífríki, landslagi og sérstæðum náttúrufyrirbærum. Uppbygging landvörslu, göngustíga og fræðslu á friðlýstum svæðum gerir okkur kleift að byggja upp ferðaþjónustu samhliða verndun náttúrunnar. Sums staðar er friðlýsing einföld aðgerð þar sem sérstætt lífríki eða jarðmyndanir fá lagalega vernd með auglýsingu án mikilla kvaða eða framkvæmda á svæðinu. Á öðrum stöðum er æskilegt og jafnvel nauðsynlegt að ráðast í stígagerð og aðrar framkvæmdir og víða eru tækifæri til að byggja upp útivistarsvæði á friðlýstum svæðum í formi fólkvanga og jafnvel þjóðgarða.

Vernd náttúru landsins er langtímaviðfangsefni sem er byggt á þekkingu á náttúrunni og virðingu fyrir henni og framkvæmt í samvinnu stjórnvalda, landeigenda og alls almennings. Náttúruverndaráætlun gegnir þar lykilhlutverki. Sú áætlun sem hér er lögð fram er byggð á vísindalegri þekkingu og faglegu mati á náttúru landsins og ég vonast til þess að umhverfisráðuneytið og stofnanir þess geti hrundið henni í framkvæmd í góðri samvinnu við sveitarstjórnir og heimamenn á hverjum stað og með reglulegri upplýsingagjöf til Alþingis sem ég geri mér vonir um að samþykki þessa tillögu

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir meginþætti tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009–2013 og legg til að tillögunni verði að lokinni fyrri umr. vísað til umfjöllunar í hv. umhverfisnefnd.