136. löggjafarþing — 45. fundur,  8. des. 2008.

náttúruverndaráætlun 2009–2013.

192. mál
[18:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður hefði hlustað af athygli á það sem ég sagði hefði hún ekki þurft að spyrja þessarar spurningar. Í orðum mínum lá einfaldlega stuðningur við þessa þingsályktunartillögu og þingflokkurinn hefur afgreitt hana hjá sér sem og ráðherrar okkar í ríkisstjórn þannig að ég geri ráð fyrir því að í því endurspeglist stuðningur við þetta mál.

Hitt er annað sem einnig kom fram í máli mínu og ég gerði fyrirvara við. Það er að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem eiga eftir að koma fram núna í vinnslu hv. umhverfisnefndar á málinu eins og við þingmenn hljótum alltaf að þurfa að gera. Við hljótum alltaf að þurfa að skoða þau sjónarmið sem koma fram, móta síðan skoðun okkar og taka ákvörðun út frá henni. Ég velktist því ekki í vafa um það í ræðu minni áðan. Ég sé í fljótu bragði ekki annað en að ég muni styðja málið eins og það er en ég bíð umsagna, sérstaklega þeirra sem munu skoða málið með nýtingaráform náttúrunnar í huga og mynda mér síðan skoðun út frá því mati. Ég vona að fleiri þingmenn séu opnir fyrir að gera það.