136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

samráð ríkisstjórnarinnar við launþegasamtökin.

[15:50]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Einn styrkleiki íslensks samfélags er að hér starfar vel skipulögð og ábyrg launþegahreyfing sem nýtur almennrar viðurkenningar og stuðnings. Þá búum við jafnframt við mjög sveigjanlegan vinnumarkað sem er ólíkt því sem er í nágrannalöndum okkar. Óvíða er jafnsterk hefð fyrir aðild vinnandi fólks að stéttarfélögum og er samkomulag um fjárhagslegan grundvöll að starfsemi þeirra. Ýmis framfaramál síðustu áratuga hafa verið að frumkvæði stéttarfélaga og samningsaðila þeirra og er þar skemmst að minnast uppbyggingar lífeyrissjóðanna sem er skrautfjöður okkar á þessu sviði í samfélagi þjóðanna. Þegar efnahagsáföllin skullu á okkur í byrjun október kölluðu launþegasamtökin á aukið samráð og við þeirri beiðni var orðið.

Þær aðstæður sem við nú stöndum frammi fyrir kalla á að öll svið samfélagsins tali saman, stilli saman strengi og séu samstiga. Með því verklagi munum við vinna okkur fyrr en ella úr stöðunni. Staða efnahagsmála nú eftir hrun bankanna í kjölfar alþjóðlegrar fjármálakreppu varðar alla. Hún hefur áhrif á heimilin í landinu með ýmsum hætti og hún kemur við kjör launamanna. Þegar hefur kaupmáttur launa skerst og spáð er auknu atvinnuleysi. Innkoma verkalýðshreyfingarinnar og tillögur hennar skipta miklu máli við lausn þess vanda sem við stöndum frammi fyrir. Á síðustu vikum hefur átt sér stað víðtækt samráð við verkalýðshreyfinguna eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra. Þannig hafa fulltrúar verkalýðshreyfingar komið með beinum eða óbeinum hætti að smíði aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar varðandi heimilin og fyrirtækin í landinu. Ljóst má því vera að ríkisstjórnin hefur leitað í smiðju launþegahreyfingarinnar um lausnir til að mæta áhrifum fjármálakreppunnar hér á landi til lengri og skemmri tíma. Svoleiðis er það og svoleiðis á það að vera.