136. löggjafarþing — 47. fundur,  9. des. 2008.

íslensk málstefna.

198. mál
[20:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni: Það skiptir máli að leggja áherslu á málfræði og beygingarfræði sem undirstöðuatriði í tungumálum. Að mínu mati verður þó að gæta þess — ég var íslenskukennari í æðimörg ár — að samtvinna þá kennslu öðrum þáttum tungumálsins. Málfræði er ekki sérstaklega spennandi verkefni fyrir unglinga á efri stigum grunnskóla eða í fyrstu bekkjum framhaldsskóla. Hún er ekki spennandi og hana þarf að nálgast með sérstökum hætti til að gera hana áhugaverða. Sú sem hér stendur hefur reyndar sérstakan áhuga á þeim þætti íslenskunnar og meiri áhuga en á mörgum öðrum þáttum en ég veit af reynslu að þetta þarf að tvinna saman á þann hátt að málfræðin sé ekki sérverkefni í tungumálakennslu heldur sé hún samofin öðrum þáttum.

Að öðru leyti tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði um þýðingar og tungumálið yfir höfuð.