136. löggjafarþing — 56. fundur,  12. des. 2008.

vextir og verðtrygging.

237. mál
[17:34]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var góð ræða hjá hv. þm. Jóni Magnússyni eins og svo margar sem hann heldur um mál sem snerta þetta allt og mælir hann þar af góðri þekkingu. Þetta mál er eitt af mörgum málum sem við þurfum að koma fram með á næstu vikum, mánuðum og missirum til að létta þeim róðurinn sem þyngstar byrðar bera.

Eins og þingmaðurinn gat um varðar þetta mál sérstaklega lækkun dráttarvaxta hjá þeim sem eru í vanskilum. Margir munu lenda í vanskilum, tímabundið vonandi, og langstærsta verkefni ríkisstjórnarinnar og fjármálafyrirtækjanna á næstu vikum og mánuðum er að koma í veg fyrir að fólk og fyrirtæki lendi í vanskilum og alvarlegum erfiðleikum. Það þarf að grípa til greiðsluaðlögunar í samfélaginu með tilliti til efnahagsþrenginganna og efnahagsáfallsins, allt er það rétt.

Þingmaðurinn nefndi sérstaklega að stóra málið væri lækkun vaxtastigsins sjálfs og við vitum öll að það tengist tímabundið hástigavöxtunum, áætlun sem íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerðu um að koma málum aftur af stað, koma verði á krónuna og koma gengismálum okkar í gang. Langstærsta og mikilvægasta verkefnið af þeim öllum, og sú aðgerð sem skiptir meira máli en allar hinar samanlagðar, er að koma genginu vel af stað og koma réttu verði á krónuna, koma jafnvægisgengi á.

Við getum síðan velt því fyrir okkur sérstaklega hvert leiðir liggja til framtíðar þegar menn ræða um gjaldmiðilsmálin og vaxtastig almennt. Við getum litið aðeins aftur til síðustu ára og borið saman vexti á Íslandi og í öðrum löndum o.s.frv. Það er stór og mikil og spennandi umræða sem mun víða fara fram á næstu vikum eins og við þekkjum. Í dag á milli kl. 4 og 6, held ég, er vinna sjálfstæðismanna í Evrópumálum kynnt o.s.frv., allt ber það að sama brunni.

Þetta mál er sérstaklega til þess að létta þeim byrðar sem lenda í vanskilum og svo er það annað stórt mál að koma í veg fyrir að vaxandi fjöldi fólks lendi í þeirri stöðu.