136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[14:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessar umræður og stórmerku ræður sem hér hafa verið fluttar, eins og hv. formaður fjárlaganefndar Gunnar Svavarsson hefur sagt, og þakka Magnúsi Stefánssyni fyrir málefnalegt innlegg í þetta. Ég hefði svo sem ekki komið hingað nema vegna þess að undir lok ræðu sinnar mælti hann svo hraustlega að sú efnahagskreppa sem nú dynur yfir þjóðina, mátti skilja á honum, væri um að kenna hagstjórninni á síðustu 12–15 mánuðum.

Þetta fannst mér djarflega mælt af manni sem átti hlutdeild í ríkisstjórn í 12 ár og sem fór svo illa að ráði sínu síðasta kjörtímabilið í þeirri ríkisstjórn að ekki aðeins var efnt til mikilla stóriðjuframkvæmda með tilheyrandi þenslu heldur líka skattalækkana og samkeppni á íbúðalánamarkaðnum sem sprengdi upp verðið á markaðnum og orsakaði þá bólu sem nú er að springa. Það er því djarflega mælt af hv. þingmanni að tala með þessum hætti og þannig eiginlega vísa frá sér allri ábyrgð á því ástandi sem er í landinu. Ég tel að það eigi m.a. rót sína að rekja til þessa, fyrir utan það að skýringanna sé m.a. að leita í einkavæðingu bankanna árið 2001 sem byrjaði þannig að það átti að vera dreifð eignaraðild en endaði síðan í eignaraðild fárra stórra aðila.

Á þessum góðærisárum hérna — í Biblíunni segir að það séu sjö feit ár og sjö mögur og það er nokkuð til í því — á þessum feitu árum hefði auðvitað átt að safna betur í hlöður en gert var í stað þess að grípa til þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin á þeim tíma gerði. Þingmaðurinn getur ekki komið hér upp og talað eins og ábyrgðin sé allra annarra en þeirra sem sátu í ríkisstjórn á þessum 12 árum og þingmaðurinn átti hlutdeild í.