136. löggjafarþing — 58. fundur,  15. des. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[23:47]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Síðustu orð hv. þingmanns vekja hjá mér spurningu sem mig langar að beina til hans um það hvernig honum lítist á þá forgangsröðun sem er að finna í fjárlagafrumvarpinu. Þar á ég við hækkun svokallaðra sjúklingaskatta upp á um 1.100 millj. kr. Hann sagði réttilega að ekki væri hægt að fara inn í næstu ár í þann blóðuga niðurskurð sem fyrir dyrum stendur öðruvísi en að ákveða hvernig ætti að forgangsraða. Hann nefndi að Alþingi ætti að koma að því. Alþingi hefur ekki komið að þeirri forgangsröðun sem hér liggur á borðum, það er ríkisstjórnin ein sem hefur verið eins og krani fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hingað inn í Alþingi. Það er forgangsröðun frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem við horfum hér á og mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig finnst honum sú forgangsröðun í heilbrigðismálum að leggja 1.100 millj. kr. í nýja sjúklingaskatta á næsta ári?