136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins o.fl.

179. mál
[14:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Við 3. umr. um þetta frumvarp ætla ég að leyfa mér að fjalla aðeins um það. Við 2. umr. um málið, sem fram fór fyrr í vikunni, ræddi hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fulltrúi flokksins í félags- og tryggingamálanefnd, um efni þess og gerði grein fyrir afstöðu sinni. Hann gerði jafnframt grein fyrir því að um málið væru skiptar skoðanir í flokki okkar. Það endurspeglaðist jafnframt í atkvæðagreiðslu við málið eftir 2. umr. Af þeim sjö þingmönnum flokksins sem voru viðstaddir atkvæðagreiðsluna voru þrír sem studdu það og fjórir sem sátu hjá.

Mér finnst eðlilegt að reifa í stuttu máli hvað veldur því að við vorum fjögur í þingflokknum sem kusum að sitja hjá við afgreiðslu málsins. Rétt er að taka fram að ég held ekki að neinn ágreiningur sé um málið í eðli sínu, heldur mismunandi áherslur.

Þetta var rætt talsvert hér fyrr á kjörtímabilinu þegar gerðar voru breytingar á þessu sama máli, að því er varðar aðlögun íbúa frá Rúmeníu og Búlgaríu að Evrópska efnahagssvæðinu.

Mín skoðun er almennt sú að þar sem við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, sem hefur eins og við öll vitum stækkað á undanförnum árum, sé rétt og eðlilegt þegar ný lönd koma til samstarfsins að leitast við að þau aðlagist þeim viðmiðunum og þeirri löggjöf sem þar gildir eins fljótt og unnt er. Ekki eigi að setja óþarfa steina í götu þess að slík þróun geti átt sér stað.

Vissulega geta aðstæður verið þess eðlis að nauðsynlegt sé að einhver aðlögunartími eigi sér stað á vissum málasviðum. Auðvitað vitum við öll að hvað varðar atvinnumarkaðinn og búseturéttinn getur það verið viðkvæmt mál, ekki síst þegar árar eins og nú gerir í íslensku efnahags- og atvinnulífi.

Í frumvarpinu sjálfu er sem sagt gert ráð fyrir að aðlögunartími Rúmeníu og Búlgaríu lengist um þrjú ár, til ársins 2012, en þátttaka þeirra á svæðinu hefði að óbreyttu átt að taka gildi að fullu 1. janúar næstkomandi.

Í nefndarálitinu er vísað til þess að rétt sé að nýta heimild til þess að fresta gildistöku laganna enn um sinn vegna þeirra þrenginga sem orðið hafa í efnahagslífi þjóðarinnar og aukins atvinnuleysis, eins og það er orðað. Þar segir jafnframt að eðlilegt sé að grípa til ráðstafana sem geti orðið til þess að draga úr yfirvofandi atvinnuleysi.

Nú er ég ekki ósammála því að eðlilegt sé að grípa til ráðstafana sem geta orðið til þess að draga úr yfirvofandi atvinnuleysi. Ég held hins vegar að menn gangi fulllangt í því og mikli fyrir sér hættuna á því að full aðild Rúmeníu og Búlgaríu að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins ógni því markmiði. Þess vegna var ég ekki reiðubúinn til þess að styðja málið þótt ég leggist ekki gegn því við þær aðstæður sem eru uppi. Ég held að ekki séu verulegar líkur á því að atvinnuöryggi hér sé stefnt í sérstaka hættu vegna málsins heldur séu aðrar aðstæður í efnahags- og atvinnulífinu sem nú munu væntanlega leiða til þess og hafa þegar gert að við höfum séð atvinnuleysi aukast.

Ég held að á þessu sé önnur hlið, ekki er endilega freistandi fyrir íbúa annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins að flytjast til Íslands við þessar aðstæður og leita sér að vinnu og búsetu þegar við búum við þessar aðstæður í efnahagslífinu og atvinnulífinu. Þar sem að við búum við vaxandi atvinnuleysi og versnandi kaupmátt nánast dag frá degi, ef svo má segja, hygg ég að ekki sé freistandi fyrir íbúa hvorki frá þessum löndum né öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins að flykkjast til Íslands. Enda hefur þróunin verið sú að við höfum að undanförnu verið með tiltölulega hátt, sögulega hátt, hlutfall útlendinga á vinnumarkaði okkar og þeim hefur fækkað núna. Útlendingar sem hér hafa verið við störf hafa verið að flytjast til síns heima. Þannig að ég held að hættan, sem menn skrifa hér um í nefndaráliti og er jú bakgrunnurinn að því að frumvarpið er flutt, sé stórlega ofmetin og ég hefði þess vegna viljað að við undirgengjumst að fullu þær skuldbindingar sem felast í þeim samningi sem við erum aðilar að og tækjum Rúmeníu og Búlgaríu inn á svæðið með fullum rétti.

Í nefndaráliti segir líka, með leyfi forseta:

„Nefndin áréttar þó jafnframt að takist þjóðinni að vinna sig út úr þeim fjárhagslegu erfiðleikum sem hún er í núna og draga verulega úr atvinnuleysi á nýjan leik áður en gildistími ákvæðanna rennur út verði vikið frá þessum hömlum og ríkisborgurum Búlgaríu og Rúmeníu veitt sömu réttindi til atvinnuþátttöku og búsetu hér á landi og aðrir ríkisborgarar á Evrópska efnahagssvæðinu hafa.“

Hér er sem sagt vikið að því að heimildin til að fresta gildistöku ákvæðisins er ekki nýtt til fullnustu. Aðlögunartíminn er í raun til ársins 2014, þ.e. fimm ár til viðbótar við það sem nú er, en hér eru þrjú ár af fimm nýtt.

Í nefndaráliti er sem sagt opnað á það að ef dregur úr atvinnuleysi áður en gildistími ákvæðanna rennur út og aðstæður á vinnumarkaði gefa tilefni til sé hægt að víkja frá þessum hömlum. Heimild sé til þess vegna þess að í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði er einhliða heimild fyrir aðildarríki til þess að víkja frá þessum hömlum en það verður hins vegar að tilkynna þær til eftirlitsstofnunar EFTA áður en heimildin rennur úr gildi um næstu áramót. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að þetta er sagt í nefndarálitinu.

Ég fagna því að nefndin tekur þó þessa afstöðu í nefndarálitinu og finnst að vissu leyti komið til móts við þau sjónarmið sem ég hef haldið fram í málinu og það er ástæðan fyrir því að ég og ýmsir aðrir í þingflokki mínum hafa kosið að sitja hjá við afgreiðslu málsins og leggjast ekki gegn því. En við teljum að rökstuðningurinn fyrir því að fresta gildistökunni og hætturnar sem þar eru sagðar á innhlaupi eða innrás, ef svo má segja, inn á atvinnumarkaðinn frá þessum ríkjum sé ofmetinn og vildum þess vegna ekki styðja það eins og það er lagt fram.

Ég vildi, frú forseti, að þessi afstaða og sjónarmið mín og ýmissa annarra kæmu fram við þessa síðustu umræðu um málið vegna þess sem kom fram í máli fulltrúa okkar í félagsmálanefnd við 2. umr. að skiptar skoðanir væru í málinu.