136. löggjafarþing — 61. fundur,  18. des. 2008.

meðferð sakamála.

217. mál
[15:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir svör hans. Ég skil mætavel að hann telji að ég hafi farið yfir sviðið vítt og breitt og kannski farið aðeins út fyrir þröngan ramma þess máls sem hér er til umfjöllunar en oft er það nú þannig að mál tengjast beint eða óbeint. Ég vakti máls á því að hv. þm. Atli Gíslason, sem á sæti í allsherjarnefnd og skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara, vakti í ræðu sinni sérstaklega athygli á tengslum þessara mála. Það varð nú tilefnið til þess að ég fór hér upp til þess að spyrja hvort allsherjarnefndin hefði rætt þann þátt málsins að einhverju leyti. Hv. þm. Birgir Ármannsson svarar því til að hann telji að í fyrsta lagi hafi það ekki verið gert og ekki hafi verið eðlilegt að tengja það með þessum hætti, þetta væri mál sem væri meira efnahagspólitískt og utanríkispólitískt og hefði ekki átt heima á vettvangi allsherjarnefndar. En vegna tenginganna við saksóknaramálin vakti ég athygli á þessu.

Ég vil sem sagt þakka þingmanninum fyrir svar hans og hans einörðu stuðningsyfirlýsingu við það mál sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur flutt ásamt fleiri þingmönnum úr öllum flokkum. Ég get notað þetta tækifæri til þess að segja að ég er algerlega sama sinnis. Ég styð það mál heils hugar og vonast til þess að það fái hér þinglega meðferð og afgreiðslu á allra næstu sólarhringum.