136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:20]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Af hverju var þetta frumvarp flutt nema af því að þingheimur óttaðist að ríkisstjórnin stæði sig ekki í stykkinu hvað undirbúning að málshöfðun gegn Bretum varðaði, óttaðist á hvaða stigi það mál væri og fór þess vegna út í þetta?

Ég skil þetta ekki. Ef stjórnarþingmenn töldu enga ástæðu til að gera þetta og að ríkisstjórnin stæði sína plikt fæ ég ekki séð að koma þyrfti fram með þetta frumvarp um málaferlin. Þá hefði ríkisstjórnin gert það. Hún hefur fullt umboð til að koma hér sjálf með tillögu um það en hún fer út í það að láta einhvern þingmann — eða hv. þm. Sigurður Kári telur sig þurfa að flytja þetta frumvarp til að tryggja að við missum ekki af tímamörkum, en við erum kannski komin á síðasta dag með að klára þetta fyrir jólafrí. Því ef ég skil rétt rennur fresturinn til að höfða mál út 7. janúar.

Þetta mun kosta mikla peninga og auðvitað er gott að það kemur fram í frumvarpinu. En það er dálítið skondið að ríkisstjórnin hefur ekki óskað eftir því að Alþingi samþykki að fara þessa leið.

Lái mér hver sem vill ef mér finnst þetta vera ákveðið vantraust á ríkisstjórnina að hún skuli ekki koma með þetta sjálf heldur þurfi þingmenn úr öllum flokkum til að koma með frumvarpið. Ég lít svo á að ríkisstjórnin sé að bregðast og hér taki þingmenn úr öllum flokkum sig saman og komi í veg fyrir að við missum af lestinni í þessu og glötum því tækifæri að fara í mál við Breta.