136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:55]
Horfa

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Herra forseti. Ég vil við lok umræðunnar nota tækifærið og þakka þeim sem tóku þátt í henni. Það hefur auðvitað verið farið um víðan völl eins og orðaskipti tveggja hv. þingmanna og hæstv. iðnaðarráðherra bera merki um, en eitt er þó ljóst af þeirri umræðu sem farið hefur fram að það er þverpólitísk sátt um að fara þá leið sem frumvarpið mælir fyrir um, þ.e. að tryggja fjárhagslega fyrirgreiðslu til þeirra sem kjósa að fara í mál fyrir erlendum dómstólum vegna aðgerða breskra stjórnvalda. Og það er þverpólitísk sátt um það og skilningur hér að Alþingi Íslendinga eigi að senda Bretum skýr skilaboð um að við aðgerðir þeirra og beitingu hryðjuverkalaga gagnvart Íslendingum og íslenskum hagsmunum verði ekki unað.

Það er ljóst að fulltrúar allra flokka sem tekið hafa þátt í umræðunni styðja málið og ég fagna því sérstaklega. Ég fagna líka þeim stuðningsyfirlýsingum sem komið hafa frá fulltrúa ríkisstjórnarinnar, hæstv. iðnaðarráðherra Össuri Skarphéðinssyni, sem lýsti hér yfir stuðningi við málið. Það sýnir hversu víðtækur stuðningurinn er. (Gripið fram í.) Nú fer málið til allsherjarnefndar og ætti að fá góðar viðtökur þar og það ætti að vera hægt að afgreiða málið úr nefndinni bæði hratt og vel.

Ég ítreka að ég vil nota tækifærið og þakka fyrir stuðninginn við málið og fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram.