136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fjallaði í löngu máli um nokkra ágalla sem hann sér á þessu frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum Hann kynnti til sögunnar þrjú frumvörp sem þingmenn Vinstri grænna hafa kynnt í dag og fjalla um frekari skattlagningu. Þau skila miðað við bjartsýnar forsendur í frumvörpunum rétt röskum 5 milljörðum kr.

Nú er það hins vegar ljóst að ríkisstjórnin stefnir að því að reyna að ná sparnaði upp á í kringum 45 milljarða kr. Ég tel satt að segja að það sé heldur lítið því að tekjuhlið fjárlaga er enn háð mikilli óvissu. Við erum í sjálfu sér að tefla á tæpasta vað með ríkissjóðshallann.

Ég hlýt þess vegna að spyrja: Hvar eru úrræði hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar kemur að niðurskurðartillögunum? Mér vitanlega eru engar tillögur komnar fram frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um samdrátt í útgjöldum ríkissjóðs. Það eru engar aðrar tillögur um niðurskurð settar fram.

Það skýtur mjög skökku við að koma hér með viðbótarskattlagningartillögur upp á 5 milljarða og láta eins og þær geti leyst málið. Hér er þörf gríðarlegs aðhalds í ríkisrekstri, það þarf að taka erfiðar ákvarðanir og ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Hvar eru tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu efni?