136. löggjafarþing — 63. fundur,  20. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[00:25]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla rétt að vona að hv. formaður iðnaðarnefndar sé ekki að skora á mig hér að taka aftur til máls og ræða í eitthvað aðeins styttra máli en þegar sem ég rakti athugasemdir mínar við þetta mál og málsmeðferðina í hálftímaræðu. (Gripið fram í.) Alls ekki. Bara málsmeðferðina. Það er einfaldlega rangt og ég mótmæli yfirlýsingunum um það. Í minnihlutaáliti mínu benti ég á ýmislegt sem betur má fara í þessu. Það sem þó fyrst og fremst skortir á er að menn nenni að vanda sig við þessa frumvarpssmíð.

Hv. þingmaður spurði hvað í ósköpunum sú sem hér stendur vildi gera við allan þennan tíma. Það sem um var að ræða og hv. formaður iðnaðarnefndar ætti að viðurkenna var að við töluðum um að taka málið út í fyrstu eða annarri viku eftir jólahlé. Í stað töfradagsetningarinnar 15. janúar væru menn kannski að tala um í síðasta lagi 15. febrúar.

Það er nú allur tíminn. Það er vika til hálfur mánuður, einn eða tveir fundir í hv. iðnaðarnefnd vegna þess, herra forseti, að það er enn þá mjög stórt gat í þessu máli sem varðar skipulagsþáttinn. Það er mjög stórt æpandi gat í því vegna þess að eins og ég sagði skipti iðnaðarráðuneytið um hest í miðri á og hv. iðnaðarnefnd gafst upp fyrir verkefninu og vísaði því bara inn í framtíðina en þó án aðkomu ráðuneytis sveitarstjórnarmála og án aðkomu sveitarfélaganna beint. Það er mjög gagnrýnivert að mínu mati.