136. löggjafarþing — 64. fundur,  20. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[14:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrir þá áhugaverðu og málefnalegu umræðu um eftirlaunamál eða -kjör þingmanna, ráðherra og hæstaréttardómara sem hér hefur farið fram í dag og tel að hún hafi verið mjög áhugaverð, meðal annars vegna þess hversu vítt hefur verið farið yfir sviðið hvað varðar almenn lífeyrisréttindi í landinu. Ég vil sérstaklega þakka, að öðrum ólöstuðum, hv. þingmönnum Kristni H. Gunnarssyni og Ögmundi Jónassyni fyrir áhugaverða umræðu um lífeyrismál. Ég verð líka að hrósa hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir þann kjark sem hann sýnir í umræðunni umfram aðra þingmenn, vil ég leyfa mér að segja, sem hugsa kannski ekkert ólíkt með sjálfum sér, að kannski sé ástæða til þess, hvað sem öðru líður, að halda til haga ýmsu sem snýr að kjörum þingmanna og kjaramálum þeirra og reyna að leiðrétta aðeins hlut þeirra í umræðunni, en það er ekki til vinsælda fallið á þessum síðustu og verstu tímum að halda þeim málstað á lofti. Þess vegna finnst mér ástæða til, burt séð frá því hvort maður er sammála þingmanninum eða ekki, að hrósa honum fyrir þann kjark sem hann sýnir.

Ég þarf ekki að hafa langt mál um frumvarpið sem hér er fram komið, virðulegi forseti, því flest hefur verið sagt sem máli skiptir en það sem er á ferðinni og er auðvitað aðalatriðið í málinu er að verið er að skerða forréttindi þingmanna og ekki síst ráðherra frá því sem verið hefur. Forréttindum er ekki viðhaldið heldur eru þau skert, því eins og fram hefur komið í umræðunni eru skuldbindingar vegna lífeyrisréttinda ráðherra um 60% og þingmanna um 20%. Í þessu felst veruleg skerðing. Ekki er hægt að kalla það neitt annað.

Vel getur verið og má færa fyrir því rök að fara hefði átt með lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra inn í A-deild Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna og eins og kom fram hjá hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni er hægt að taka þá umræðu á einhverjum síðari stigum ef mönnum svo sýnist en hér er hins vegar stigið verulega stórt skref í þá átt að færa lífeyrisréttindi ráðherra og þingmanna nær því sem almennt gerist, ekki síst hjá opinberum starfsmönnum. Við skulum hafa í huga í þessari umræðu að ekki búa allir landsmenn við sömu lífeyrisréttindi. Þau eru ólík á milli A- og B-deildar opinberra starfsmanna, þau eru ólík á milli almenna markaðarins og opinbera markaðarins. Nú eru lífeyrisréttindi ráðherra og þingmanna færð nær því sem almennt gerist.

Réttindaávinnslan er vissulega meiri hjá þingmönnum eftir þetta en í A-deild lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna vegna þess að réttindaávinnsla hjá þingmönnum og ráðherrum er 2,375% í stað 1,912% eins og er í A-deildinni en það byggir þá á því að þingmenn og ráðherrar greiða 5% iðgjald en ekki 4% iðgjald eins og greitt er í A-deildinni. Á því byggist munurinn á réttindaávinnslunni.

Í frumvarpinu er því líka breytt sem mörgum hefur verið mikill þyrnir í augum að ráðherrar eða þingmenn sem fara á eftirlaun geti á sama tíma fengið laun úr ríkissjóði, vegna þess að hugmyndin á bak við eftirlaunin er sú að sjá til þess að allir hafi eitthvað sér til lífsviðurværis. Reyndar hefur það farið svo hjá ýmsum hópum að fólk getur fengið greitt úr lífeyrissjóði og haft tekjur annars staðar frá á sama tíma en óeðlilegt er að á sama tíma sé hægt að tryggja eftirlaun úr ríkissjóði og laun sem ríkissjóður greiðir og (Gripið fram í.) með þessu frumvarpi er því breytt. En þetta hefur verið mörgum þyrnir í auga.

Sama á við um aldursmörk. Í lögum frá 2003 voru þau færð verulega niður þannig að þingmenn og ráðherrar gátu við tilteknar aðstæður farið á full eftirlaun 55 ára að aldri. Því er nú breytt og aldurinn hækkaður, hið almenna viðmið er 65 ár en við tilteknar aðstæður geta þingmenn og ráðherrar farið á eftirlaun við 60 ára aldur, þannig að hér eru forréttindi almennt skert frá því sem verið hefur. Ég tel að þetta sé til mikilla framfara og komið sé til móts við þá miklu gagnrýni sem var á lagasetninguna árið 2003 sem fulltrúar allra flokka komu að með einum eða öðrum hætti, eins og fram hefur komið í umræðunni. Ég ætla ekki að fara í þær sögulegu útskýringar en allir flokkar komu að lagasetningunni með einum eða öðrum hætti.

Fimm ár hafa liðið og á þeim tíma hafa allir flokkar og þingmenn haft tækifæri til að koma fram með frumvörp til að sýna hvert þeir vildu stefna með lífeyrisréttindin en þeir einu sem það hafa gert hafa verið þingmenn úr flokki Samfylkingarinnar. Jóhanna Sigurðardóttir og Margrét Frímannsdóttir fluttu frumvarp og síðan fluttu þingmenn með Valgerði Bjarnadóttur í broddi fylkingar frumvarp til breytinga á lögunum en aðrir man ég ekki eftir að hafi hreyft sig fyrr en þá núna, korteri fyrir framlagningu þessa frumvarps frá ríkisstjórninni. Að málinu hefur verið unnið mjög ötullega af hálfu Samfylkingarinnar og það er að skila árangri því ég tel að ástæðan fyrir því hversu langt við náum nú í því að skerða forréttindin er að steinninn hefur verið klappaður af okkar hálfu í hartnær fimm ár og það er farið að skila þeim árangri að nú er dregið úr þeim forréttindum sem þingmenn og ekki síst ráðherrar hafa notið samkvæmt lögunum frá 2003.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttur spurði hvernig á því hafi staðið að Samfylkingin hafi ekki reynt að ná samkomulagi allra flokka um þetta mál. Ég var þeirrar skoðunar að það hefði verið mjög mikilvægt ef það hefði tekist en niðurstaða mín er sú að ekki var sátt um málið árið 2003 og segja má að forsendur hafi brostið þá og ekki hafi verið forsendur síðan til að ná sátt þvert á alla flokka um málið þó að mjög æskilegt hefði verið að það tækist. Ég held að hvorki séu forsendur né vilji til þess af hálfu allra þingmanna að ná saman um málið vegna þess að það er að mörgu leyti þess eðlis að pólitískt getur verið heppilegt að um það séu átök og þess vegna hafi niðurstaða ekki fengist. En nú er að komast á lokastig þetta frumvarp til laga sem felur í sér verulega breytingu og niðurskurð á þeim forréttindum sem þessir hópar hafa hingað til haft.