136. löggjafarþing — 65. fundur,  20. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[17:19]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram um að það er ástæða til þess að þakka það frumkvæði sem felst í flutningi þessa þingmáls og þeim stuðningi við það sem komið hefur í ljós.

Jafnframt þarf að hafa í huga að þau mál er lúta að hugsanlegum málarekstri í Bretlandi eru tvíþætt. Það mál sem hér er fyrst og fremst haft í huga er mál sem íslenska ríkið hefur ekki beinan aðgang að. Þess vegna er lagt til í þessu frumvarpi að þrátt fyrir að íslenska ríkið hafi ekki beina aðild að því máli sé heimilt að veita fjármuni úr ríkissjóði til að styrkja aðra aðila til að fara í það mál. Það á ekki að blanda þessu saman.

Hitt málið er síðan mál þar sem ríkið hefur beina aðkomu og ekki þarf að endurtaka það sem hér hefur oft komið fram af minni hálfu og annarra í ríkisstjórninni. Sá málflutningur og aðdragandi að þeim málaferlum er auðvitað í undirbúningi en við þurfum ekki sérstaka fjárveitingaheimild til að standa að því.