136. löggjafarþing — 67. fundur,  22. des. 2008.

fjáraukalög 2008.

239. mál
[17:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Gunnar Svavarsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ræðuna og yfirlýsingar um samráð og samvinnu. Það er gott að vita til þess að það er til staðar.

Ég ætla fara örlítið inn á tvö mál. Annars vegar varðar það lánsfjárheimildirnar. Þegar lögin voru samþykkt á sínum tíma var í 1. málslið 5. gr. fjármálaráðherra heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán allt að 30 milljörðum eða 30 þúsund milljónir. Við framlagningu fjáraukalagafrumvarpsins fyrir hálfum mánuði var sú upphæð komin í 234 milljarða. Síðan kom ósk um að sú tala yrði hækkuð í 660 milljarða í bréfi frá ráðuneytinu og ríkisstjórn þann 20. desember sl. á fundi fjárlaganefndar á laugardaginn.

Í skýringum í umræddu bréfi segir svo:

„Með ofangreindum breytingum á 5. gr. er í fyrsta lagi óskað eftir 426 milljarða kr. hækkun á lántökuheimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs sem þörf er á vegna aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs í kjölfar áfalla í fjármálakerfi landsins.“

Ég minni síðan á þá heimild sem þingið veitti í maí sl. varðandi það að styrkja gjaldeyrissjóðinn, gjaldeyrisviðspyrnuna í Seðlabankanum.

Síðan hefur því verið lýst yfir í nefndaráliti varðandi fjárlögin, virðulegur forseti, að meiri hlutinn muni leggja fram frumvarp um fjáraukalög í febrúar nk. þar sem leitað verði eftir heimildum Alþingis til fjárráðstafana, millifærslu milli fjárlagaliða í samræmi við nefndarálitið eins og gerð var grein fyrir. Ég tel að það sé í fyrsta skipti sem slík yfirlýsing liggur fyrir (Forseti hringir.) þannig að það sé öllum ljóst.