136. löggjafarþing — 69. fundur,  20. jan. 2009.

stjórnarskipunarlög.

58. mál
[16:00]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja nokkur orð í belg varðandi þá umræðu sem hér fer fram, umræðu um stjórnarskrána og stjórnarskipunarlög sem fer kannski of sjaldan fram á hinu háa Alþingi. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson á heiður skilinn fyrir að taka þessa umræðu upp og leggja fram ákveðnar hugmyndir til breytingar á stjórnarskránni.

Ég ætla líka að leyfa mér að nota þann tíma sem ég hef til þess kannski að tala líka almennt um stjórnarskrána og stjórnarskrárbreytingar og hvernig umræðan hefur þróast hér um nokkuð langt skeið. Ég held, virðulegi forseti, að kominn sé tími til þess að við á hinu háa Alþingi hugleiðum það mjög vandlega og skoðum stöðu Alþingis í víðara samhengi en við höfum gert hingað til. Við búum við það fyrirkomulag að hér er blandað kerfi, þ.e. framkvæmdarvald og löggjafarvald eru þannig nátengd í þeim skilningi í gegnum þingræðisregluna sem felur það í sér að engin ríkisstjórn getur setið nema Alþingi að minnsta kosti veiti henni hlutleysi eða þá að minnsta kosti að meiri hlutinn styðji viðkomandi ríkisstjórn. Þetta fyrirkomulag hefur oft og tíðum verið gagnrýnt og kannski meira nú undanfarið en oft áður og þá einkum sú staðreynd að langsamlega stærsti hluti þeirra laga sem fara hér í gegn og eru afgreidd á hinu háa Alþingi, þ.e. frumvörp sem eru afgreidd á hinu háa Alþingi koma frá ráðherrum ríkisstjórnar hverju sinni. Er ég þá ekki að gera upp á milli ríkisstjórna á nokkurn hátt heldur hefur þetta fyrirkomulag tíðkast um mjög langt skeið og ég held að það sé orðið tímabært að við hugleiðum þá möguleika og þær hugmyndir sem hafa komið fram í þessu efni.

Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er staldrað við þrjú ákvæði og lagðar til breytingar á þeim. En ég held að full ástæða sé til þess að skoða þetta í stærra samhengi og skoða þetta þá þannig hvort ástæða sé til þess að skilja betur að framkvæmdarvald og löggjafarvald en nú er. Hér er lagt til meðal annars að ráðherra sitji ekki sem alþingismaður og má segja sem svo að það sé góðra gjalda vert. En það má einnig víkja til þess sem hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á hér áðan, að þá koma inn varaþingmenn í stað þeirra sem taka sæti sem ráðherrar þannig að segja má sem svo að þetta fyrirkomulag styrki heldur en veiki meiri hlutann hverju sinni sem er á þinginu. Ég er ekki endilega viss um að það sé sú hugmynd sem hér býr undir. Hins vegar er prinsippið eða grundvallaratriðið sem ég tel að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sé að benda á raunverulega að greina betur en nú er gert milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég vil segja það sem mína skoðun í þessu máli að ég tek ekki endilega undir þær hugmyndir og sjónarmið sem hafa verið sett fram. Ég held jafnvel að það væri skynsamlegra að við mundum reyna að skoða breytingar á stjórnarskrá í stærra samhengi og víðara samhengi en kannski hér er lagt til en um leið, eins og ég nefndi áðan, fagna ég því að þessi umræða fari af stað.

Virðulegi forseti. Ég gæti vel séð það fyrir mér að þarna yrði um algera aðgreiningu að ræða milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og þá jafnvel þannig að þingmönnum yrði fækkað eitthvað en á móti kæmi að aðstaða þeirra og umbúnaður yrði þannig gerður að það hlutfall sem nú ríkir og hefur orðið að veruleika, þ.e. að flest lagafrumvörp koma á einn eða annan hátt frá ráðuneytunum, að þau verði unnin í miklu meira mæli hér á þinginu og afgreidd en nú er. Ég held að það megi hugsa þetta margvíslega. Við höfum fyrirmyndir víða úr heiminum og einmitt í dag er nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Barak Obama, að taka við embætti og þar er einmitt dæmi um þessa aðgreiningu valdþáttanna þriggja, framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds.

Um leið og ég nefni dómsvaldið þá tel ég að það eigi að skoða mjög vandlega að breyta reglum varðandi skipun dómara, sérstaklega hæstaréttardómara og eins héraðsdómara, sem gerir það þá að verkum að Alþingi komi í mun ríkara mæli að þeirri ákvörðun. Alþingi er eðli málsins samkvæmt æðst handhafanna þriggja, þ.e. æðst valdhafanna. Alþingi hefur umboð þjóðarinnar. Þangað er valdið sótt og í gegnum alþingiskosningar hverju sinni veitir þjóðin þingmönnum umboð sitt, að minnsta kosti tímabundið. Eðli málsins samkvæmt er Alþingi því æðst þessara handhafa þó að það megi segja sem svo að Alþingi hafi að sumu leyti afsalað sér hluta af valdi sínu til framkvæmdarvaldsins. En ég held einmitt varðandi það umhverfi og þá umræðu sem hér hefur þróast í nokkuð langan tíma — þá má jafnvel benda alveg aftur til þess tíma er Vilmundur Gylfason heitinn og fleiri fjölluðu um þessa þætti og lögðu fram ákveðnar hugmyndir sem mér hafa alltaf þótt skynsamlegar — til dagsins í dag að þá held ég að það sé einmitt mikilvægt að umræðan um formið, um umgjörðina, um stjórnskipunina sjálfa fari fram af meiri þunga en verið hefur. Ég tel að við eigum að skoða þessa hluti í stærra samhengi en við höfum gert hingað til og gera á þeim ákveðnar breytingar.

Ég vildi leggja þetta, virðulegi forseti, inn í þessa umræðu um leið og ég fagna frumkvæði hv. þingmanns um að taka hér upp umræðu um stjórnarskrána sem kannski allt of lítið er gert af á þinginu og ræða það form sem við vinnum innan því að það form skiptir miklu máli um hvernig lýðræðið gengur fram og hvernig við náum að framkvæma það lýðræði sem við reynum að halda í heiðri. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi taki meira vald til sín en verið hefur. Það hefur það vald sem það vill. En það hefur afhent framkvæmdarvaldinu talsvert af því í þeim skilningi. Við sjáum hvernig frumvörp eru afgreidd og hvaða frumvörp eru afgreidd. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og ég held að það sé afar mikilvægt að við reynum að skoða þessi mál í mun stærra samhengi en við höfum gert og ein þeirra hugmynda sem hefur verið vakin upp er meðal annars að setja á fót stjórnlagaþing. Ég man að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir flutti frumvarp ítrekað um slík mál. Ég held að full ástæða sé til þess í ljósi þess umróts sem nú er, í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í nokkra áratugi, að skoða vandlega slíkar hugmyndir og skoða það að breyta stjórnarskránni jafnvel í ríkara mæli en hér er lagt til.