136. löggjafarþing — 70. fundur,  22. jan. 2009.

staða efnahagsmála og horfur á vinnumarkaði, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:45]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þessar umræður hafa um margt verið fróðlegar. En það er hins vegar þannig, hæstv. forseti, að stundum ber forustumönnum ríkisstjórnarinnar ekki alveg saman. Ef ég hef tekið rétt eftir þá sagði hæstv. forsætisráðherra að það væru líkur á því, miðað við að hægt væri að selja ákveðnar eignir, að skuldir okkar gætu til framtíðar verið um 70% af landsframleiðslu. Mér heyrðist hæstv. fjármálaráðherra tala hér áðan um að þær getu verið kannski 40–50% af landsframleiðslu. Eitthvað held ég að þarna passi ekki í dæmið. Hins vegar, hæstv. forseti, finnst mér að ráðherrarnir sem hér hafa talað hafi ekki reynt að upplýsa okkur um mál eins og til dæmis Icesave. Það er ekki verið að segja okkur hvar það mál er statt. Það er ekki verið að segja okkur í hvaða ferli það er. Það er ekki verið að segja okkur hvort það sé líklegt að menn séu að ná þar einhverju samkomulagi sem þjóðin fái undir risið eða hvort það stefni í það sem ég held að það eigi að stefna í, þ.e. að verða óleyst deila milli Íslendinga og Breta, óleyst deila. Við höfum áður staðið í deilum við Breta og þær hafa verið óleystar um þó nokkurra mánaða skeið og ára skeið. Það þarf ekki nema minna á landhelgisstríðin í því sambandi. Ég held nefnilega að við fáum ekki undir því risið að taka við Icesave-reikningunum eins og þeir liggja fyrir í dag.

Það er talað um eignirnar í Bretlandi sem hugsanlega munu ganga til móts við þær skuldbindingar sem við tökum á okkur. Það er einnig svo, hæstv. forseti, því miður, að eignaverð í Bretlandi er að snarlækka og við vitum ekki og höfum ekki fengið upplýst — alla vega hef ég ekki heyrt það — hvaða tjón varð af þeim eignum með beitingu hryðjuverkalaganna í Bretlandi. Hvaða áhrif hafði það á eignastöðu þessara fyrirtækja? Við höfum ekki verið upplýst um það, hæstv. forseti. En ég hef grun um að þær eignir sem menn töldu vera jafnvel svo mikils virði að við þyrftum ekki að taka á okkur nema kannski 100–150 milljarða þegar upp væri staðið séu ekki þannig metnar í dag. En það hefur ekki verið upplýst og mér finnst vanta á það, hæstv. forseti — ég verð að segja það eins og það er — að forustumennirnir í ríkisstjórninni sem best eiga að vita upplýsi þingheim og þjóð um það hvernig þessi mál liggja fyrir.

Hér var minnst á verðtryggingu áðan. Hv. þm. Helgi Hjörvar minntist á hana. Ég vil minna á það, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til í mörg ár í þingmálum að verðtryggingin yrði tekin til gagngerrar endurskoðunar með það að markmiði að leggja hana niður, með það að markmiði að við værum ekki með sérstaka vísitölutryggingu lánsfjárskuldbindinga eins og verið hefur á undanförnum árum.

Það er algerlega ljóst að eins og nú horfir í íslensku þjóðfélagi getur orðið eignaþurrð. Ég vil leyfa mér að nota það orð. Það getur orðið eignaþurrð hjá fjölskyldum í landinu, hvort sem skuldir þeirra eru vegna verðtryggðra lána til komnar eða vegna gengistryggðra lána. Vonandi styrkist gengið og skuldirnar lækka. En fyrir því höfum við, því miður, enga tryggingu.

Hæstv. forseti. Okkar mál í íslensku þjóðfélagi eru grafalvarleg. Ég sagði það í fyrri ræðu minni að við hv. þingmenn yrðum að axla þessa ábyrgð sameiginlega. Ég vil endurtaka það í lok þessarar ræðu minnar, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum erum tilbúnir til þess að reyna að leggja því lið að íslenska þjóðin komist sem best frá þeim gríðarlegu vandamálum sem fram undan eru. En þá erum við líka að tala um alvörusamráð í þeim málum þannig að menn hafi eitthvað um það að segja hvernig við ætlum að taka á ákveðnum málum okkur til hagsbóta. Þá erum við líka að tala um það, hæstv. forseti, að það liggi þá fyrir samkomulag um það hvenær eigi að ganga til kosninga í þessu landi. Það þarf að vera. Það þarf að nást sátt við þjóðina til að við getum unnið þau verk sem við þurfum að takast á við.