136. löggjafarþing — 71. fundur,  22. jan. 2009.

endurskoðun á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn.

258. mál
[14:10]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er eitthvert vitlausasta frumvarp sem þessi lélega ríkisstjórn hefur lagt fram þá mánuði eða þau missiri sem hún hefur verið að störfum. Matvælalöggjöf Evrópusambandsins hentar meira að segja illa í Evrópusambandinu hvað þá hér uppi á Íslandi á einangruðu eylandi norður í höfum.

Spurning mín til hæstv. ráðherra, áður en umræðan hefst fyrir alvöru, varðar kostnaðaráætlunina sem fylgir frumvarpinu og umsögn fjármálaráðuneytisins sem mér sýnist að hafi ekki verið endurnýjuð fyrir gerð eða prentun þessa frumvarps. Ég sé ekki betur en að okkur sé boðið upp á það að fá gamla umsögn frá fjárlagaskrifstofu því að hér er verið að tala um fjárlagafrumvarpið 2007 og hvað hafi verið ætlað til málsins 2007 og hversu mikill kostnaðurinn verði 2007.

Ef það er rétt að hér sé um gamla umsögn frá fjárlagaskrifstofu að ræða þá er um handvömm að ræða sem hæstv. ráðherra á að skammast sín fyrir að láta henda. Ef svo er þá krefst ég þess, hæstv. forseti, að málið verði tekið af dagskrá nema ráðuneytið endurnýi þessa umsögn frá fjármálaráðuneytinu þannig að við fáum réttar tölur sem reiknaðar eru á réttu gengi miðað við það sem við búum við í dag.

Svo langar mig til þess að segja það að miðað við þær tölur sem við þó höfum hér er gert ráð fyrir að kostnaðarauki hins opinbera af þessari innleiðingu sé tæpar 300 millj. kr. á ári þegar allt er komið til framkvæmda.

Þó að við séum kannski orðin vön að tala hér um 2.000 milljarða eins og ekkert sé þá eru 300 millj. kr. í kostnaðarauka vegna þessarar innleiðingar á ári fyrir okkur Íslendinga hreinlega allt of mikið. Og við þurfum ekki að auka kostnaðinn svona mikið þar sem við þurfum ekki að innleiða þetta frumvarp og þessa matvælalöggjöf. Ég vil gjalda varhuga við því að (Forseti hringir.) farið sé inn á þá hálu braut sem er að auki gríðarlega kostnaðarsöm.