136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

kjör nýs forseta þingsins.

[14:02]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er gaman að koma hingað til leiks eftir þau umskipti sem hafa orðið af því að það er greinilegt að allir eru að reyna að fóta sig í nýju hlutverki.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að hæstv. forseti hefur komið ýmsum umbótum í framkvæmd í þinginu og sú er hér stendur hefur átt þátt í því að koma þeim á ásamt fleiri þingmönnum. Ég vil nefna sérstaklega það að takmarka ræðutímann sem brýn þörf var orðin á að gera þannig að það var mjög gott. Ég verð hins vegar að segja að mér brá talsvert þegar ég sá Morgunblaðið í dag þar sem hv. þm. Geir H. Haarde segir að verið sé að fara í aðför að forsetanum og það sé takmarkalaus valdagræðgi í Samfylkingunni út af þessu máli. Ég vil minna sjálfstæðismenn á að í síðasta meiri hluta voru 43 þingmenn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, 43 þingmenn, meira en tveir þriðju af þinginu. (Forseti hringir.) Samt datt Sjálfstæðisflokknum ekki í hug að bjóða stjórnarandstöðunni formennsku í einni einustu nefnd né forsetaembættið. Það er lýðræðisástin hjá Sjálfstæðisflokknum.