136. löggjafarþing — 73. fundur,  4. feb. 2009.

umræða um stefnu ríkisstjórnarinnar.

[14:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því sem nýr forsætisráðherra að óska eftir góðu samstarfi og samvinnu við allan þingheim um þau erfiðu störf sem fram undan eru. Við höfum stuttan tíma og ríkisstjórnin er með verkáætlun, sem hefur verið kynnt, og leggur mikla áherslu á að hún nái fram að ganga á þeim stutta tíma sem við höfum til stefnu.

Varðandi það að leggja fram ræðu mína á þessum degi var ég upplýst um að ég þyrfti ekki að gera það þar sem þetta væri ekki hefðbundin stefnuræða, sem væri flutt að afloknum kosningum. Ég vissi ekki fyrr en í dag að óskir lægju frammi um að ég legði fram stefnuræðu mína í tíma fyrir fundinn í kvöld. Ég mun gera mitt besta til að verða við þeim óskum og mun kappkosta að reyna að ljúka þeirri ræðu þegar ég kemst í ráðuneyti mitt að þessum fundi loknum, þannig að þingmenn geti fengið hana í hólf til sín eins fljótt og kostur er fyrir fundinn sem hefst hér í kvöld.