136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna frumvarpinu sem hér er lagt fram um breytingar á lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands. Það er löngu tímabært að koma á faglegri yfirstjórn í Seðlabanka Íslands. Það stjórnkerfi sem þar hefur verið undanfarin ár hefur fyrir löngu gengið sér til húðar og nýtur hvorki tiltrúar meðal almennings og markaðsaðila innan lands né meðal markaðsaðila úti í heimi.

Í þessari umræðu er mörgu blandað saman og látið að því liggja að annarlegar hvatir liggi að baki því að ríkisstjórnin leggur áherslu á að skipt sé um yfirstjórn í Seðlabankanum. Þess misskilnings hefur líka gætt að með setu í ríkisstjórn og samþykki við peningamálastefnu og grunnreglur hennar, sem í gildi hafa verið frá því að samkomulag tókst milli ríkisstjórnar og Seðlabanka árið 2001, felist jafnframt ábyrgð á framkvæmd peningamálastefnunnar og einstökum aðgerðum yfirstjórnar Seðlabanka Íslands. Algjörlega fráleitt er að halda því fram, eins og gert hefur verið í umræðunni, að hæstv. forsætisráðherra hafi með því að sitja í ríkisstjórn sem stóð að því að áfram yrði í gildi peningamálasamkomulag milli ríkisstjórnar og Seðlabanka frá árinu 2001 tekið einhvers konar ábyrgð á aðgerðum eða aðgerðaleysi bankastjórnar Seðlabanka Íslands.

Í því stjórnkerfi sem byggt hefur verið upp á sviði peningamála í nágrannaríkjum okkar og þeim ríkjum þar sem best hefur tekist til hefur mikil áhersla verið lögð á að seðlabankar, stjórnsýsla þeirra og stjórnskipan hafi tiltrú og þeir sem þeim störfum gegna axli ábyrgðina sem því fylgir. Í ábyrgðinni felst að eiga málefnalegar samræður um peningamálastefnu og framkvæmd hennar á faglegum grundvelli jafnt við almenning, fyrirtæki og sérfræðinga og láta hag peningamálastefnunnar og framkvæmd hennar vera í forgrunni en ekki pólitísk eða annarleg sjónarmið, sem ekki eiga heima í rekstri seðlabanka.

Margt má segja um þá tilraun sem lagt var af stað með á Íslandi árið 2001 með fljótandi gjaldmiðil í minnsta mynt- og gjaldmiðilskerfi í heiminum. Eftir á að hyggja er ljóst að það var mikill misskilningur og vanmat á aðstæðum að halda að slíkt kerfi væri til þess fallið að skapa efnahagslegan stöðugleika eða leggja grunn að honum til lengri tíma. Það lá ekki ljóst fyrir árið 2001 og ég skal viðurkenna að ég var einn þeirra sem féll fyrir þeim rökum að á þeim tíma væri væntanlega betra að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil vegna þess að ég trúði því eins og margir aðrir að hefðbundnar kenningar um gjaldmiðilsþróun ættu enn þá við að því leyti að gjaldmiðill sem við hefðum sjálf endurspeglaði í ríkara mæli íslenskar efnahagsaðstæður en annar stærri gjaldmiðill. Reynslan hefur hins vegar sannarlega sýnt okkur að svo er ekki heldur hefur gjaldmiðillinn þvert á móti reynst óstöðugleikavaldur í sjálfu sér og frekar verið valdur að efnahagsvanda en hluti af lausn á efnahagsvanda og smæð hans hefur aukið á vandann.

Þegar horft er til aðgerða bankastjórnar Seðlabanka Íslands á undanförnum árum er ljóst að þar er um mikla hörmungarsögu að ræða í framkvæmd peningamálastefnu. Ég hefði kosið að bankastjórar Seðlabankans öxluðu ábyrgð á því ástandi sem upp er komið og hlustuðu á þær raddir sem fram hafa komið um að þeir séu örugglega ekki hluti af þeirri lausn sem við þurfum til að endurreisa íslenskt efnahagslíf heldur frekar hluti af þeirri fortíð sem þarf að ljúka og snúa baki við til að geta haldið áfram. Mér finnst mjög sérkennilegt að bankastjórarnir skuli kjósa að sitja sem fastast og skýla sér á bak við lagaþrætur og skæklatog þess efnis að þeim sé ekki skylt að víkja í ljósi laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, eins og formaður bankastjórnar Seðlabankans lét sér sæma að hafa í frammi á viðskiptanefndarfundi í desemberbyrjun, í stað þess að axla siðferðilega ábyrgð á ástandinu sem upp er komið og þeim skorti á trúnaðartrausti sem er víðtækur í garð bankastjórnarinnar.

Svo verður hver að fljúga sem hann er fjaðraður og bankastjórarnir verða að fá að haga málum með þeim hætti sem þeir sjálfir kjósa. Við þær aðstæður er óhjákvæmilegt að ræða þá ágalla sem hafa verið á framkvæmd þeirra á starfsskyldum sínum á undanförnum missirum og árum.

Ég ætla ekki að fara aftar en til ársins 2006. Þó er hægt að nefna árið 2004 þegar bindiskylda var afnumin í upphafi árs og þar með greitt fyrir því að íslensku bankarnir hefðu nægt fé til að standa að húsnæðislánabyltingunni miklu síðsumars 2004. Bankinn gerði ekkert til að draga úr fé á markaði í kjölfar innrásar bankanna á húsnæðismarkaðinn, sem sprengdi upp eignaverð í landinu með mjög erfiðum afleiðingum.

Ljóst var eftir erfiðleikana sem íslensku bankarnir gengu í gegnum árið 2006 að tvísýnir tímar væru fram undan og bankarnir væru mjög viðkvæmir fyrir því hvernig háttaði á erlendum lánsfjármörkuðum og væru skuldsettir og þar af leiðandi mjög viðkvæmir fyrir því ef lokaðist fyrir erlent lánsfé. Viðvaranir í þessa veru voru grunnstefið í efnahagsstefnu Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 2007 þar sem verulega var varað við nákvæmlega þessari hættu.

Á seinni hluta ársins 2007 var öllum ljóst að þessi blanda, stórt bankakerfi með miklar erlendar skuldbindingar og lítill gjaldmiðill, var banvæn en Seðlabankinn gerði á þessum tíma ekkert til að bregðast við því og hafði ekkert frumkvæði að því að efla gjaldeyrisvarasjóð bankans. Á þessum tíma var áhættuálagið á ríkissjóð Íslands á bilinu 11 til 20 punktar. Seðlabankinn hreyfði sig ekki á nokkurn hátt á seinni hluta ársins 2007 til þess að heyja í forða og safna gjaldeyrisforða, til að takast á við þá erfiðleika sem sannarlega og augljóslega voru fram undan. (Gripið fram í.) Nei, það sáu það allir, hv. þingmaður, strax á fyrri hluta ársins 2007 og bendi ég hv. þingmanni á að lesa ritið Jafnvægi og framfarir, efnahagsstefnu Samfylkingarinnar frá því í apríl 2007 (Gripið fram í.) þar sem nákvæmlega þessari hættu er lýst og varað við henni. Um leið og lokaðist fyrir erlenda lánamarkaði og lánsfjárkrísan byrjaði á seinni hluta árs 2007 mátti öllum vera þetta ljóst, sérstaklega hagfræðingum sem eiga að hafa til þess faglega burði. Ef Seðlabankinn sá þetta ekki fyrir, hv. þingmaður, er það enn frekari sönnun þess að yfirstjórn Seðlabankans hafði ekki faglega burði til að sinna starfi sínu.

Virðulegi forseti. 2008 gekk hörmungarsagan enn lengra. Einhvers konar meint viðvörun var gefin á fundi seðlabankastjóra með a.m.k. forsætisráðherra og utanríkisráðherra í marsmánuði 2008, eftir því sem hann sjálfur sagði síðar. Hann kvaðst hafa lesið úr handriti ýmiss konar varúðaryfirlýsingar um ástand bankakerfisins og varað í stórum orðum við hættunni. Hann las þessi meintu viðvörunarorð upp rúmu hálfu ári seinna, (Gripið fram í.) en nokkuð er á reiki hvort þeir sem á fundinum voru muna þessi orð með sama hætti og handritið finnst hvergi þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni. Fjölmiðlar hafa ítrekað gengið eftir því að fá upplýsingar um handritið og fá það afhent án árangurs og leikur nú á huldu um hvort þessar viðvaranir hafi nokkurn tíma verið gefnar með þeim orðum sem formaður bankastjórnar Seðlabankans þykist nú hafa viðhaft. Í öllu falli hlýtur það að vera undarleg stjórnsýsla af hálfu Seðlabankans að gefa viðvaranir af þessum toga munnlega og hafa ekki um það neitt einasta skjalfest gagn eða geta ekki á nokkurn hátt sýnt fram á með hvaða hætti viðvaranirnar um þessa miklu tímamótahættu voru hafðar í frammi.

Það sem ýtir frekar undir þann grun að um eftiráskýringar sé að ræða er sú staðreynd að strax í mánuðinum á eftir, aprílmánuði, afnam þessi sama bankastjórn Seðlabankans bindiskyldu á útibú bankanna í útlöndum og opnaði þar með fyrir enn frekari skuldsetningu þeirra í útlöndum. Það var því alla vega ekki meira samhengi á milli aðgerða og orða en þetta og sýnir það enn frekar faglega vanhæfni bankastjórnarinnar til að axla ábyrgð.

Í fjármálastöðugleikaskýrslu í maí 2008 er farið með yfirveguðum hætti yfir bæði hættur og styrkleika bankakerfisins. Sú greining er í nokkru ósamræmi við þær meintu dómsdagsspár sem formaður bankastjórnar Seðlabankans þykist hafa haft í frammi við tiltekna ráðherra í mars 2008. Hann sagði á fundi viðskiptanefndar Alþingis að hann hefði í júlímánuði sagt við forsætisráðherra að núll prósent líkur væru á því að bankarnir hefðu krísuna af, núll prósent líkur, engar líkur væru á að íslensku bankarnir hefðu þetta af. Samt var engin viðbragðsáætlun gerð í Seðlabanka Íslands frá því í júlí og fram að bankahruni til að takast á við fyrirsjáanlegt og óhjákvæmilegt bankahrun, (Gripið fram í.) ef marka má orð formanns bankastjórnar Seðlabankans. Ef eitthvað er að marka hann og ef um eitthvað annað er að ræða en gaspur og blaður. Ef hann sagði sannanlega í júlí að engar líkur væru á að bankarnir lifðu þetta af, hvar eru þá viðbragðsáætlanirnar sem hann og bankastjórn Seðlabankans hefðu átt að grípa til?

Þetta er enn fremur í ósamræmi við yfirlýsingu Ingimundar Friðrikssonar bankastjóra í ræðu sem hann hugðist halda í dag en var aflýst og birt er á vefsíðu Seðlabankans. Þar segir hann að bankastjórnin hafi ákveðið að lána Kaupþingi tveimur dögum fyrir hrunið, því að með hliðsjón af horfum um lausafjárstöðu bankans hafi verið talið að hann gæti staðið af sér stórviðrin og því hafi Seðlabankinn veitt honum lán. Hvar er núllprósentgreiningin fræga þegar þar er komið sögu? Hvar er þessi djúpstæða faglega greining formanns bankastjórnar Seðlabankans frá því í júlí á því að engar líkur væru á að bankarnir hefðu þetta af þegar síðan var í lagi að lána þeim alla þessa peninga bara nokkrum dögum fyrir hrunið vegna þess að Kaupþing mundi örugglega komast í gegnum erfiðleikana? Hér rekur sig hvað á annars horn og augljóslega er um ófagleg vinnubrögð að ræða.

Ummælin um óreiðumenn sem margoft hefur verið vitnað til voru ekki til þess að auka traust á íslensku efnahagslífi á viðkvæmri stund og sáðu efasemdum um að Íslendingar ætluðu að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar erlendis. Það var ábyrgðarhluti af formanni bankastjórnar Seðlabankans. Í því ágæta Kastljósviðtali talaði hann einnig fyrir einföldu kennitöluflakki og því að Íslendingar ætluðu ekki að virða skuldbindingar sínar gagnvart öðrum þjóðum. Yfirlýsing formanns bankastjórnarinnar um Rússalán á mesta örlagadegi í sögu íslensks fjármálakerfis, yfirlýsing sem byggði á svefndrukknum misskilningi á símtali við sendiherra Rússlands, er einsdæmi í sögu seðlabanka í Vesturálfu. Slík afglöp hefðu verið afsagnarástæða ein og sér fyrir alla faglega ráðna bankastjóra í seðlabönkum í nágrannalöndunum.

Ákvörðun bankastjórnarinnar um fastgengisstefnu án þess að hafa til þess gjaldeyrisvaraforða og án þess að ræða þá ákvörðun við hagfræðinga bankans er annað dæmi um afdrifarík og fráleit afglöp sem ein og sér væru afsagnarsök í öðrum löndum. Þá er ekki nefnd barátta formanns bankastjórnarinnar gegn aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að lausn á málum þjóðarinnar í haust og þær skemmdarverkaaðgerðir sem hafðar voru í frammi af hans hálfu gagnvart þeirri áætlun.