136. löggjafarþing — 76. fundur,  6. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:34]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að skilja þetta frumvarp til fulls nema hafa í huga forsögu málsins. Þá á ég ekki bara við söguna í haust eða vandræðagang íslenska Seðlabankans undanfarin ár, heldur í raun alla síðustu áratugi vegna þess að staðreyndin er sú að þrátt fyrir að Íslendingum hafi um margt tekist að reka efnahagslíf sitt ágætlega hefur okkur aldrei tekist nema kannski í stuttan tíma í senn að reka hér almennilegan seðlabanka og halda uppi stöðugri mynt með stöðugu verðlagi og aldrei komist nálægt því að búa til innlenda mynt sem er gjaldgeng utan landsteinanna.

Það má eiginlega segja að Seðlabanki Íslands sé ekki nýtt vandamál. Hann er vandamál sem við höfum búið við áratugum saman. Við höfum búið við meiri verðbólgu en nokkurt annað land í Vestur-Evrópu. Við þurfum að fara til Tyrklands til að finna eitthvað sambærilegt. Gengið hefur verið óstöðugt. Við reyndum að vera með fastgengisstefnu og vorum hvað eftir annað hrakin úr henni yfir í sígandi gengi eða gengisfellingu. Öll saga eftirstríðsáranna sem er sá tími sem við höfum haft okkar eigin sjálfstæða gjaldmiðil í þeim skilningi að hann var ekki bundinn föstu gengi gagnvart dönsku krónunni var svona. Þetta er ein samfelld hrakfallasaga.

Það var auðvitað ekki þannig að inn í þann ágæta banka réðist eingöngu óhæft fólk og það sé skýringin á því að þessi saga sé svona slæm. Það má vel vera að einhvern tíma hafi starfað óhæft fólk í bankanum eins og öðrum stofnunum, ég ætla svo sem ekkert að reyna að leggja mat á það. Ég veit fyrir víst að margir af forustumönnunum voru hæfir og vel menntaðir en voru kannski í því hlutverki að taka ekki sjálfstæðar ákvarðanir og lentu í því að framkvæma misvitrar ákvarðanir sem teknar voru annars staðar, kannski í þessu húsi og kannski við ríkisstjórnarborðið. Þessi hrakfallasaga er ekkert endilega einstökum starfsmönnum, eða í raun og veru alls ekki einstökum starfsmönnum, að kenna. Þetta er samt forsagan sem við búum við og þurfum að vinna úr.

Það hefur aldrei gengið verr að reka þennan banka en einmitt undanfarin ár. Það gekk að vísu kannski ágætlega rétt undir lok 20. aldar en síðan hefur bankinn ekki séð til sólar. Hann var hrakinn af gengismarkmiði sínu árið 2001 og það leiddi til allverulegra vandræða þá sem eru þó ekki mjög stórvægileg samanborið við það sem við horfum upp á núna. Þá skipti hann yfir í verðbólgumarkmið og hann hefur eiginlega aldrei náð því síðan — (ÓN: Á þá ekki bara að leggja hann niður?) Það er auðvitað hægt að gera það og ýmsir vilja tala fyrir því en þá þurfum við að taka upp aðra mynt í leiðinni og það er víst einhver andstaða við það.

Fyrir utan þessi vandræði með gjaldmiðilinn í þeim skilningi að verð hans hefur verið óstöðugt sem lýsir sér í verðbólgu og breytingum á gengi hefur bankinn átt í verulegum vandræðum með að uppfylla önnur hlutverk sín, eins og t.d. með að byggja upp trúverðugan og öflugan gjaldeyrisforða. Hann hefur jafnvel lent í vandræðum með tiltölulega hversdagsleg tæknileg vandamál eins og að útbúa trúverðugar hagtölur. Hann hefur, og það skiptir reyndar meira máli, lent í verulegum vandræðum með að starfa sem bakhjarl viðskiptabankakerfisins og það er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það hafi skipt verulegu máli í því að hér hrundi viðskiptabankakerfið.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal rakti nokkrar ótrúverðugar yfirlýsingar sem hafa ekki komið íslenska fjármálakerfinu vel. Ég held að það vegi ekkert sérstaklega þungt en það breytir því ekki að bankanum, hvort sem það var stjórnendunum eða kenna, umgjörð bankans eða, sem ég held að hafi ekki verið, einhverjum einstökum starfsmönnum sem stjórnuðu ekki bankanum, mistókst hrapallega í því sem er eitt af hans allra mikilvægustu verkefnum, að viðhalda fjármálastöðugleika. Hverjum svo sem það er um að kenna stendur bankinn eftir rúinn trausti og það gerir hann nánast óstarfhæfan. Í fjármálum, eins og raunar öllum viðskiptum en hvergi meira en í fjármálum, skiptir traust gífurlega miklu máli til að viðskipti geti gengið eðlilega fyrir sig. Án þess á bankinn sér raunverulega ekki viðreisnar von. Það er engin von til þess að hann nái markmiðum sínum, hvort sem það eru einhver hversdagsleg markmið um verðbólgu eða að verða trúverðugur bakhjarl viðskiptabankakerfisins þannig að endurreisn þess geti gengið eins og við öll vonumst eftir.

Án trúverðugs seðlabanka er lítil von til þess að við fáum nokkurn tíma trúverðugt viðskiptabankakerfi. Þegar erlendir aðilar horfa til Íslands og velta því fyrir sér hvort þeim sé óhætt að eiga viðskipti við íslenskar fjármálastofnanir staldra þeir óhjákvæmilega við og skoða Seðlabankann og ef hann virðist ekki ráða við hlutverk sitt vilja þeir ekki koma nálægt íslenskum fjármálastofnunum. (Gripið fram í.)

Auðvitað hefur margt fleira farið úrskeiðis en bara stjórnun Seðlabankans undanfarin ár. Það væri mjög barnalegt að halda því fram að sú staða sem við erum í núna sé einungis Seðlabankanum að kenna. Auðvitað hvarflar það ekki að neinum. Það fór mjög margt úrskeiðis og auðvitað bera þeir sem voru við stjórnvölinn í fyrirtækjum í einkageiranum og viðskiptabönkunum þunga ábyrgð líka. Ýmsar aðrar opinberar stofnanir og jafnvel stjórnmálamenn hljóta jafnframt að bera sinn skerf. Sumir hafa rætt um fjölmiðla í þessu samhengi og ég held að það sé að sumu leyti rétt. Hér var andrúmsloft þar sem eiginlega allir studdu við bankana og þetta andrúmsloft var að hluta til byggt upp með því að það var pólitískur vilji fyrir því að hefta ekki bankana heldur láta þá blómstra, búa til verðmæti og ráða fólk í hálaunuð störf eins og þeir gerðu um tíma. Fjölmiðlar endurspegluðu þennan tíðaranda og mögnuðu hann upp þannig að það er margt sem brást.

Kannski má segja að þjóðfélagið hafi brugðist. Auðvitað er ekki þar með sagt að allir einstaklingar í þjóðfélaginu hafi brugðist en einhvern veginn brugðumst við sem heild þótt sumir einstaklingar hafi borið meiri ábyrgð á því en aðrir. Þegar svo er komið er einfaldlega ekki hægt að segja: Þetta var nú neyðarlegt. Við vonum að það gangi betur næst og ætlum að halda áfram með meira eða minna sömu umgjörð og sama fólk, sama fólkið og er búið að vera að gefa út innstæðulaus heilbrigðisvottorð fyrir íslenska fjármálakerfið. Ætlast virkilega einhver til þess að það haldi áfram að gefa út heilbrigðisvottorð fyrir nýja fjármálakerfið? Hvers virði verða slíkar yfirlýsingar í augum erlendra viðskiptavina bankanna? Þær verða ekki einu sinni teknar gjaldgengar hérna innan lands. Í útlöndum munu menn ekki einu sinni hafa fyrir því að lesa þær. Auðvitað hefur þetta líka bein áhrif innan lands þannig að banki sem enginn hefur trú á að nái markmiðum sínum, eins og t.d. um verðlag, mun ekki ná markmiðum sínum. Það er alveg sama hversu harkalega hann beitir stjórntækjum sínum, ef enginn trúir því að stjórntækin virki virka þau ekki. Það þýðir að við getum setið uppi með háa vexti en náum samt ekki tökum á genginu eða verðbólgunni.

Ég ætla ekki að ganga svo langt, og raunar fer því fjarri, að halda því fram að það að breyta umgjörð Seðlabankans og setja nýja menn við stjórnvölinn muni leysa öll vandamál. Því fer auðvitað fjarri. En það hlýtur að vera fyrsta skrefið í áttina að því að endurreisa traust á íslenska fjármálakerfinu. Við getum ekki hafið þá vegferð með óbreytt skipulag.