136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

hvalveiðar.

[16:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er helst gagnrýnd tímasetning ákvörðunar ráðherra og að hann hafi ekki kynnt sér málið nægilega vel og ekki tekið tillit til og skoðað nægilega önnur sjónarmið í málinu. Þeir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sem þannig tala hér hafa einfaldlega ekki kynnt sér þau gögn sem liggja fyrir og ég rakti áðan að kostað hafi þjóðarbúið tugi milljóna á undanförnum árum, skýrslur hver á eftir annarri. Þið hafið bara ekki lesið þetta, af því að þessu hefur líka stundum verið stungið undir stól. Það er staðan í þessu máli.

Það er bara vönduð og góð stjórnsýsla sem hæstv. þáverandi sjávarútvegsráðherra byggði sína niðurstöðu og sína ákvörðun á. Hann byggði hana nákvæmlega á öllu því sem fyrir liggur. Skrefin hafa verið tekin hægt og rólega í þessu máli frá 2003 þegar fyrst var hægt að stíga skref til að uppfylla ákvörðun Alþingis um málið 2003, af því að við gengum í Alþjóðahvalveiðiráðið árið 2002 og þá fyrst var hægt að hefjast handa. Það hefur verið gengið eins hægt og varlega í þessar ákvarðanir og mögulegt er að gera. Og þrátt fyrir allar svartsýnisspárnar og þrátt fyrir allt sem átti að gerast hér og fara niður við þessar ákvarðanir og aðgerðir okkar hefur ekkert af því gengið eftir. Það er margsannað í öllum þeim skjölum og plöggum sem hafa verið búin til um þetta. Könnunin sem ég nefndi áðan var gerð meðal 5.000 manna í okkar helstu viðskiptalöndum. Hún kostaði 20 millj. kr. á þáverandi gengi, unnin af erlendum aðilum.

Virðulegi forseti. Með ákvörðun hæstv. sjávarútvegsráðherra í þessu máli núna er verið að setja málið í herkví. Það er verið að reyna að koma því þannig fyrir að við komumst ekki af stað á þessu ári vegna þess að undirbúningur krefst tíma og hann krefst þess tíma sem fram undan er. Þetta mál þolir ekki frekari tafir og m.a. þess vegna var þessi ákvörðun tekin af hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. (Forseti hringir.) Er allt þetta lýðræðistal sem við höfum þurft að hlusta á frá fulltrúum núverandi (Forseti hringir.) ríkisstjórnar bara lýðskrum?