136. löggjafarþing — 77. fundur,  9. feb. 2009.

stjórn fiskveiða.

63. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Guðjón A. Kristjánsson) (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fór í umfjöllun sinni um þetta frumvarp um takmarkaðar handfæraveiðar, í raun og veru inn í grunnumræðuna um stjórn fiskveiða, þ.e. hvaða aðferðir við ætlum að nota, aflamark, sóknarmark, sóknartíma, aflahlutdeild o.s.frv. Væntanlega fáum við að taka þá umræðu dýpra á eftir á næsta máli en ég ætla að gera hér. Ég vek hins vegar athygli á að í tengslum við þá hugsun sem verið hefur í íslenska kvótakerfinu, að útgerðarmenn eigi ákveðna hlutdeild og fái hana á hverju ári en geti síðan ákveðið að ráðstafa henni án þess að veiða hana, þ.e. að leigja hana, veðsetja hana, taka lán út á hana, selja hana jafnvel o.s.frv., þá hafa verið miklar spekúlasjónir um það allt saman í gegnum árin.

Ég ætla bara að lýsa skoðun minni á því, hæstv. forseti, eftir að hafa horft á þetta kerfi þróast í 25 ár, að ég tel að afnema eigi leigu- og sölurétt útgerðarmanna, að þeir eigi eingöngu að fá nýtingarrétt sem þýðir að þeir eiga að veiða það sem þeir hafa aðgang að og að sá nýtingarréttur eigi að standa þeim til boða með útfærðu leigukerfi og útfærðum leigumarkaði, sem þarf auðvitað að vera á skynsamlegum nótum. Ég mun taka þá umræðu á eftir en (Forseti hringir.) ég taldi rétt að gera þessa athugasemd af því að hv. þingmaður kom inn á þetta efni málsins.