136. löggjafarþing — 78. fundur,  10. feb. 2009.

lögskráning sjómanna.

290. mál
[15:06]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Vel getur verið að um einhvern misskilning sé hér að ræða en í gildandi löggjöf nær skráningin til allra sjómanna sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri. En áður átti þetta við 12 tonn og stærri. Þannig voru lögin. Ég þekki það sjálfur og hef verið á skipum alveg niður í 12 tonn og þar hefur skráning verið skylda, en á skipum undir 12 tonnum hefur ekkert þurft að skrá þannig að — (Samgrh.: Það er gert núna.) það er ekki gert með þessu, 20 brúttótonn eða stærri. Við erum þá ekki að lesa sama texta. (Samgrh.: Lestu 2. gr.) Ég er að lesa hér 4. gr. (Samgrh.: Hvað stendur í 2. gr.?) Í 2. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Lög þessi gilda um áhafnir allra skráningarskyldra skipa á Íslandi.“

Í athugasemdum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er lögð til sú meginbreyting frá gildandi lögum að lögskráningin tekur nú til allra sjómanna sem starfa um borð í skipum sem skráningarskyld eru hér á landi. Í gildandi löggjöf nær skráningin til allra sjómanna sem ráðnir eru til starfa á skipum sem skráð eru hér á landi og eru 20 brúttótonn eða stærri.“

Það er verið að breyta lögunum. Ég held að hæstv. ráðherra verði að gera sér það ljóst en hann virðist ekki vera nægilega vel inni í þessum málum til að átta sig á því út á hvað frumvarp hans gengur og betra væri að hann kynnti sér það betur og vissi um hvað hann væri að tala.