136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

tekjustofnar sveitarfélaga og gatnagerðargjald.

185. mál
[11:58]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Frú forseti. Ég tek undir með þeim sem hér hafa mælt og í ljósi efnahagsástandsins er nauðsynlegt að koma fram með það frumvarp sem hér um ræðir. Það er ljóst að efnahagshrunið kemur illilega niður á sveitarfélögunum en þó með öðrum hætti en hjá ríkinu. Tekjufallið verður í rauninni miklu minna þrátt fyrir allt. Hins vegar hafa mörg sveitarfélög farið mjög illa út úr hruninu, ekki bara vegna bankakreppunnar heldur vegna þess að tekjufallið hefur orðið talsvert. Þetta er í rauninni mjög erfið staða en þrátt fyrir allt hafa sveitarfélögin forgangskröfu í fasteignir þegar kemur að því að kröfur gjaldfalla, þá hafa sveitarfélögin forgangsrétt í kröfurnar. Engu að síður er nauðsynlegt að veita það svigrúm sem hér er veitt og þetta frumvarp kemur inn á og þess vegna held ég að allir hljóti að fagna því.

Ég held að þetta svigrúm geti í rauninni orðið til þess að miklu síður verði gengið að aðilum. Fólk fær meira svigrúm til að koma sínum málum fyrir vind sem er náttúrlega gríðarlega mikilvægt. Það er mjög slæmt þegar sveitarfélagið gengur fram í því að innheimta skuldir sínar mjög hart, kannski þegar bankakerfið er tilbúið til að veita svigrúm. Slíkt gæti orðið til þess að fasteignir færu á uppboð sem annars væri hægt að bjarga með því að gefa einstaklingum og fyrirtækjum lengri tíma til að afla fjármuna og rétta úr kútnum og komast fyrir vind.