136. löggjafarþing — 80. fundur,  12. feb. 2009.

efnahagsmál.

[15:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli ánægju með að við ræðum efnahagsmálin hér í dag sem eru mál málanna. Ég vil þakka hv. þm. Geir H. Haarde fyrir að vekja máls á þessu. Það er nýr tónn hjá Sjálfstæðisflokknum hér á þingi að ræða um mál sem virkilega skipta máli og ég vil minna á að fyrsti dagur okkar hér á þingi eftir að ný ríkisstjórn tók við fór í að ræða hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætti að hafa forseta Alþingis eða ekki, heill dagur.

Ég fagna því að komin sé ákveðin samhljómur í að við ætlum okkur að takast á við þá erfiðleika sem við okkur blasa. Og þar þurfum við að koma fram sem einn maður í viðræðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það er forgangsmál að lækka stýrivextina. Atvinnulífið brennur upp í 18% stýrivöxtum, skuldir heimilanna stórhækka í 18% stýrivöxtum. Við þurfum að standa saman í þessu brýna máli, að lækka stýrivexti Seðlabanka Íslands og þar þurfum við að koma fram með trúverðugum hætti sem einn maður. Við höfum að undanförnu hér á landi skipt um ríkisstjórn, við höfum skipt um yfirstjórn í Fjármálaeftirlitinu og nú liggur fyrir Alþingi Íslendinga frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands sem er grundvallarstofnun og það þarf að vanda vel til þeirrar meðhöndlunar í viðskiptanefnd.

Það hefur heyrst að við framsóknarmenn séum að leggja sérstaklega stein í götu þess að það frumvarp verði afgreitt frá Alþingi Íslendinga. Það er síður en svo. Við höfum lýst því yfir og það er stefna flokksins að við viljum breyta yfirstjórn Seðlabankans og við viljum breyta umgjörðinni. Það er bara ekki sama hvernig það er gert. Við þurfum að fá álit vísra manna til þess að fara yfir það. Ég hef nefnt að mér finnst álitamál hvernig eigi að skipa í peningastefnunefndina sem á að auka trúverðugleika Seðlabankans. Það er verið að skoða. Við framsóknarmenn höfum lagt mikla áherslu á að við gerum ríkar kröfur um hæfi og menntun seðlabankastjórans. Það er verið að skoða. Og við framsóknarmenn höfum líka lagt fram frumvarp hér á Alþingi um að gagnsæi í ákvarðanatöku, til að mynda um stýrivexti, sé algjört. Þar höfum við talað fyrir því að fundargerðir séu birtar og fleira í þeim efnum. Allt þetta er verið að skoða á vettvangi viðskiptanefndar og við munum leitast við að vinna hratt að því máli. Það þýðir ekki að afgreiða lög um grundvallarstofnun eins og Seðlabanka Íslands á einum eða tveimur dögum og ég held að allir þingmenn séu sammála okkur framsóknarmönnum um það.

Það bíður mikið verkefni við að endurreisa efnahagslífið og bankarnir munu gegna lykilhlutverki í því. Ríkið á fullt í fangi með að reka þrjá stóra ríkisbanka og við framsóknarmenn höfum að undanförnu talað fyrir því að við þurfum að styrkja sparisjóðakerfið í landinu. Ég velti því fyrir mér hvort við ættum að huga að þeirri leið að sparisjóðafjölskyldan í landinu taki yfir einn af þremur stóru ríkisbönkunum. Það gæti styrkt sparisjóðakerfið í landinu og mundi um leið létta á ríkinu, þann erfiða rekstur sem á því hvílir. Ég tel að þetta sé leið sem við þurfum að skoða því að ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að styrkja og viðhalda sparisjóðunum í landinu sem hafa sannað gildi sitt að undanförnu.

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn buðum fram hlutleysi okkar gagnvart þeirri minnihlutastjórn sem nú er við störf. Ég legg ríka áherslu á að við þingmenn stöndum saman um að styðja þá stjórn til allra góðra verka. Við framsóknarmenn höfum sagt hér á Alþingi að við munum styðja mál hvort sem þau koma frá stjórn eða stjórnarandstöðu. Markmið okkar hlýtur að vera að skapa betra samfélag, að skapa betra Ísland og almenningur gerir kröfu um að við komum okkur upp úr MORFÍS-gírnum, (Forseti hringir.) upp úr stríðsgrafarhernaðinum sem hér hefur ríkt á undanförnum dögum og stöndum saman sem einn maður. Það er aðalatriðið fyrir íslenska þjóð.