136. löggjafarþing — 81. fundur,  16. feb. 2009.

breyting á niðurgreiðslu lyfjakostnaðar.

[15:30]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra um nýja sjúklingaskatta sem felast í hækkun hlutdeildar sjúklinga í lyfjaverði sem tilkynnt var í gær. Í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir nokkrum vikum var tekin ákvörðun um hækkun á komugjöldum í heilbrigðisþjónustu sem höfðu ekki hækkað um árabil og áttu að skila ríkissjóði um 260 millj. kr. og innritunargjald á sjúkrahús nam alls 100 millj. kr. Þingmenn Vinstri grænna fóru hamförum hér í þinginu í hneykslun sinni yfir þessari ósvífni.

Ég vek athygli á því að fyrrverandi ríkisstjórn ákvað að láta þar við sitja og hlífa sjúklingum við frekari hækkunum á kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Nú hefur hæstv. heilbrigðisráðherra, nýr í starfi, ákveðið að bæta um betur og auka enn frekar álögur á sjúklinga og hækka lyfjakostnað um 10%.

Í fréttatilkynningu hæstv. heilbrigðisráðherra frá í gær, um margvíslegar breytingar á reglum um niðurgreiðslu vegna lyfjakostnaðar almennings, kemur fram að færa á 400 millj. kr. úr vasa almennings í ríkissjóð með breytingum á reiknireglum um skiptingu lyfjaverðs milli sjúklings og almannatrygginga á þökum og gólfum eins og segir í texta ráðuneytisins. Röksemdir fyrir þeirri hækkun eru sambærilegar þeim sem þingmenn Vinstri grænna, m.a. núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, náðu ekki upp á nef sér í reiði sinni yfir í umræðu um fjárlögin í desember síðastliðnum. Þessi þök og gólf hafa verið óbreytt frá ársbyrjun 2001 en vísitalan hefur hækkað um 60% á sama tíma. Ja, sér eru nú hver umskiptin í málflutningi.

Athygli vekur að þrátt fyrir ítarlega fréttatilkynningu kemur ekki fram hver hækkun á lyfjaverði er til almennings, það þurfti að bíða eftir Morgunblaðinu í morgun til að átta sig á að um 10% hækkun er að ræða.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra um hvort hér séu á ferðinni nýir sjúklingaskattar. Hvað finnst honum um að ríkisstjórnin hækki gjöld á sjúklinga við þær aðstæður sem heimilin nú standa frammi fyrir? Væri ekki ráð að ganga lengra í stýringu á lyfjaverði og lyfjavali til að lækka lyfjakostnað í landinu eins og áform voru uppi um hjá fyrri ríkisstjórn? Og hvers vegna upplýsti hæstv. ráðherra ekki í fréttatilkynningu (Forseti hringir.) um hvað lyfjakostnaður heimilanna væri að hækka?