136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál.

[13:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég skal með glöðu geði svara hv. þm. Björgvin G. Sigurðssyni síðar þegar tími gefst til og þess vegna á morgun en við ræðum nú málefni Hólaskóla. [Frammíköll í þingsal.]

Ég hafði boðað það hér, eins og er venja núna varðandi störf þingsins, að ræða málefni Hólaskóla. Ef forseti gefur mér leyfi til skal ég koma hingað aftur og svara þá um Evrópusambandið.

Ég vil klára að tala um málefni Hólaskóla. Við erum sammála um að við viljum byggja upp á Hólum. Við erum sammála um að efla á háskólastarf, hvort sem er á Hólum, Ísafirði eða Hvanneyri, en þá verður engu að síður að taka á málefnum þessara stofnana með raunhæfum hætti og það var gert í þessari skýrslu. Hv. þm. Guðbjartur Hannesson tók þátt í því að móta tillögur sem stuðla að því að byggja upp á Hólum. Þess vegna kemur mér það spánskt fyrir sjónir ef síðan á að slátra þessum tillögum því lífsnauðsynlegt er að tekið verði á málefnum og fjárhagsmálefnum Hóla. Það er lífsnauðsynlegt, enda er rétt að minna á að 90 millj. voru samþykktar á fjáraukalögum og 75 millj. voru líka samþykktar til að fylgja eftir tillögunum sem síðan er búið að slátra. Ég held að þetta sé vont fyrir Hólaskóla. Verið er að slá á frest erfiðum en mikilvægum ákvörðunum sem tengjast uppbyggingu skólanna og skólakerfisins alls. Ég held að þetta sé einmitt boðberi þess sem koma skal, erfiðum ákvörðunum sem tengjast fjárlagagerðinni er slegið á frest. Þannig verður þetta næstu 60–70 daga í tíð þessarar ríkisstjórnar.