136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

málefni Hólaskóla -- efnahagsmál og ESB.

[13:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson notaði orðið „villuljós“ í ræðu sinni. Ég held að málflutningur hans í dag og flokksfélaga hans úr Samfylkingunni sé einmitt villuljós. Íslendingar eiga við alvarleg vandamál að stríða, það er nauðsynlegt að grípa til margvíslegra aðgerða til þess að koma efnahagslífinu á réttan kjöl. Þess í stað talar Samfylkingin um Evrópusambandið og evruna sem er, eins og bent hefur verið á hérna — jafnvel þó að allir væru sammála um að fara þá leið — langt undan og leysir á engan hátt þau vandamál sem við eigum við að stríða í dag.

Hins vegar er það óneitanlega mjög hlálegt að heyra hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma hér upp og ræða Evrópumálin sem mikilvægasta og brýnasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar þegar þeir eru nýsestir í ríkisstjórn sem hefur ekki á stefnuskrá sinni að gera neitt í þessum málum, ekki neitt. Þeir fara í samstarf við Vinstri græna til að gera ekki neitt í þessu máli sem þeir telja vera brýnasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar. Hvers konar samkvæmni er það? Eru menn samkvæmir sjálfum sér?

Eins og við vitum hafa þessir flokkar líka í hyggju að starfa saman eftir kosningar. Er líklegt að eitthvað þokist meira áfram í Evrópumálunum við þær aðstæður? Ég held að þetta séu allt saman sjónhverfingar samfylkingarmanna vegna þess að þeir vita ekki hvað þeir eiga að segja um efnahagsmál.