136. löggjafarþing — 82. fundur,  17. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

286. mál
[17:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum afskaplega merkilegt mál og mér þykir mjög vænt um að það sé komið fram. Það er mjög gott að fá umræðu um stjórnlagaþing, stjórnarskrána og allt slíkt og ég tel að menn eigi að taka þetta mjög alvarlega. Þetta er gott mál.

Ég hef svo sem nokkrum sinnum lagt til breytingar á stjórnarskránni. Ég hef lagt fram frumvarp um að afnema forsetaembættið vegna þess að það er mjög undarlegt fyrirbæri í stjórnskipuninni. Það er bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald. Í 2. gr. stjórnarskrárinnar stendur að forseti sé bæði löggjafarvald og fari líka með framkvæmdarvald. Þannig að það er mjög undarlegt.

Svo hef ég lagt til líka að ráðherrar séu ekki þingmenn — eða verið með á því frumvarpi með hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Ég hef reyndar einnig lagt til að þingmönnum verði fækkað niður í 41. Það mundi ekki breyta neinu nema kannski valdahlutföllum. Fleiri varaþingmenn kæmu inn fyrir þá flokka sem færu í ríkisstjórn. Í sjálfu sér mundi það ekki breyta neinu að hafa 41 þingmann. Þeir eru 41 núna sem eru starfandi í þinginu, í nefndum og utanlandsstarfinu og öllu slíku. Ráðherrar eru ekkert í því þannig að það mundi engu breyta og við spöruðum helling af pening.

Breyting á stjórnarskrá er heimspeki. Eftir gerð frönsku stjórnarskrárinnar komust menn að því að ekki væri gott að einn maður setti lög, framkvæmdi þau og dæmdi samkvæmt þeim. Það er ekki gott. Einstaklingurinn er gjörsamlega ofurseldur slíkum manni hvort sem hann heitir keisari, kóngur, fursti eða eitthvað annað. Þannig að heimspekingarnir í frönsku byltingunni, Rousseau og fleiri, bentu á að skipta þyrfti þessu valdi í þrennt, framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Þannig að stjórnlagaþing og stjórnarskrá eru heimspeki, en ekki lögfræði. Svipað og boðorðin tíu, sem eru mjög klár, mjög einföld og segja helling og eru eiginlega grundvöllur siðfræði okkar.

Ég tel að hafa ætti stjórnarskrána í þremur flokkum hvað varðar mannréttindi. 1. gr. stjórnarskrárinnar segði að engan mann mætti drepa. Það er svo einfalt. Vegna þess að ef drepa má mann er allt hitt ónýtt. Málfrelsið og eignarrétturinn og allt það er ónýtt. Þannig að þetta er grundvallaratriði.

Síðan kemur annar kafli mannréttinda sem verndar einstaklinga fyrir öðrum einstaklingum og ríkisvaldinu, það er málfrelsi, eignarréttur o.s.frv., mörg ákvæði sem vernda einstaklinga fyrir öðrum einstaklingum, rétturinn á lífi og limum o.s.frv. Þessi tvö atriði eru algjörlega óháð landamærum og gilda um allan heim. Við megum ekki hvika frá þessum mannréttindum.

Svo eru það mannréttindi þar sem einstaklingar eiga kröfu á annað fólk eða samfélagið. Framfærslukrafa barna til foreldra sinna, framfærsluskylda sveitarfélaga og ríkisins til öryrkja og aldraðra. Þetta eru kröfur einstaklingsins á annað fólk og þær kröfur og þau mannréttindi eru háð landamærum. Það er bara þannig. Það er fólk sem sveltur í Sómalíu. Þar getur verið að réttur móðurinnar til lífs sé meiri, sbr. 1. gr., en réttur barnsins til umönnunar. Veruleikinn er bara svoleiðis. Hann er oft mjög dapurlegur. Þannig að þessi mannréttindi eru háð umhverfinu, efnahagskerfinu og öllu því.

Þetta á að koma fyrst í stjórnarskránni. Síðan kemur stjórnskipunin. Af hverju þarf að koma stjórnskipun? Til að tryggja hin þrjú atriðin, réttinn á lífið, löggæslu, réttinn á vörn gegn öðrum og rétt eða kröfu á annað fólk og samfélagið. Til þess þarf stjórnskipun, ríki. Ríkið þarf að skiptast í þrennt og þessi kafli stjórnarskrárinnar á að vera í þremur pörtum. Þar á að standa: Ríkisvaldið skiptist í þrennt, og svo á að telja þessi atriði. T.d. er ekki orð um Hæstarétt í núgildandi stjórnarskrá. Hann er ekki til. Þannig að lýsingu á dómskerfinu vantar. Það vantar lýsingu á framkvæmdarvaldinu og enn betri lýsingu á löggjafarvaldinu. Þetta þarf að vera algjörlega aðskilið. Þess vegna sé ég ekki að forseti Íslands geti komið inn í þessa mynd nema sem dómsvald, löggjafarvald eða framkvæmdarvald.

Stjórnarskráin á að vera stutt og hnitmiðuð og vera segjandi. Hún á að segja eitthvað og það sem hún segir á að vera rétt. Í 25. gr. núgildandi stjórnarskrár stendur, með leyfi herra forseta:

„Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.“ — Bíddu. Er þetta eitthvað í gildi? Í 20. gr. stendur: — „Forseti lýðveldisins veitir þau embætti, er lög mæla.“ — Og hann veitir lausn.

Svo er það 21. gr. Hún er merkileg, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki.“

Mjög merkilegt. Með því að lesa stjórnarskrána gæti maður haldið að forseti Íslands væri rosalega valdamikill. En það er allt saman villa vegna þess að svo er ákvæði um að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Þá er allt hitt tekið í burtu. Ekkert er að marka það sem þar stendur. Einhver sem les stjórnarskrána heldur að þetta sé svona. En það er ekki rétt, það þarf aldeilis að laga þessi atriði þannig að stjórnarskráin sé segjandi.

Ég held að það sem hafi gerst sé það að kóngurinn í Danmörku hafi þurft að afsala sér völdum af því að frelsisbylgja var komin um Evrópu. Völdin voru tekin af honum. Ég þekki söguna ekki nákvæmlega en þingið hefur örugglega tekið af honum völdin eftir eitthvert stríðið sem hann tapaði. En til að hafa þetta í lagi var hann látinn halda völdunum nokkurn veginn. Svo var bætt við fyrir aftan að ráðherra framkvæmi vald kóngsins. Síðan gaf kóngurinn okkur þessa stjórnarskrá og hún er nákvæmlega eins. Ég sé enga ástæðu til að menn hafi breytt því. Svo við lýðveldisstofnunina tóku menn hana svona „copy-paste“ og þýddu og settu forseta í staðinn fyrir kóng. Þess vegna var ekki bara kóngurinn heldur forsetinn líka skattfrjáls lengi vel. Svo var samþykkt frumvarp, sem ég flutti reyndar, um það að hann skyldi borga skatt eins og annað fólk. Þá kom í ljós að tvöfalda þurfti launin hans því skattfrelsið var svo mikið þegar hann var skattfrjáls af öllu. Virðisaukaskatt og vörugjöld og tekjuskatt og ég veit ekki hvað. Eignarskatt og alls konar. Makinn var líka skattfrjáls um allan heim.

Frumvarpið sem við ræðum um stjórnarskrána er mjög merkilegt og ég tek gjarnan undir það og vil sjá eitthvað gerast. Þar eru ákveðin praktísk vandamál sem hv. nefnd, sem fær þetta til umsagnar og umfjöllunar, þarf að laga. Í fyrsta lagi meðmæli 300 kjósenda. Það er dálítið þungur þröskuldur að komast yfir að ná í 300 meðmæli. En 300 manna hópur gæti gert þetta fyrir allan hópinn, að láta blöðin ganga. Þá væru allt í einu komnir 300 frambjóðendur til stjórnlagaþingsins. Þetta gengur náttúrlega ekki. Þannig að setja þarf hámark á hvað hver maður má mæla með mörgum. Það er praktískt vandamál. Svo þarf að vera alveg klárt að sá sem býður sig fram vilji það sjálfur. Samþykki þess sem býður sig fram þarf að koma til, svo ekki sé boðið fram alls konar fólk sem segir: Heyrðu mig, ég vil þetta ekki.

Svo það að undanskilja ráðherra, þingmenn og varaþingmenn. Vel getur verið að einhver hætti við að bjóða sig fram til Alþingis af því hann vill frekar fara á stjórnlagaþingið.

Svo er það sem ég skildi ekki alveg að takmarkanir eru settar við hagsmunagæslu utanaðkomandi gagnvart þinginu. Ég næ því ekki alveg, en allt í lagi. Svo er það tíminn. Ég tel að vel sé hægt að vinna þetta á sex mánuðum. Ekki vandamál. Þetta fólk á jú ekki að gera neitt annað allan daginn. Ég mundi segja að stjórnlagaþingið byrjaði á því að kynna sér heimspekina á bak við stjórnarskrár og kynna sér stjórnarskrár helstu landa og fara í gegnum þær. Þetta fólk gerir ekkert annað allan daginn. Síðan fer það að mynda sér skoðun á því hvernig þetta eigi að líta út, t.d. getur vel verið að menn fallist á þessa skoðun mína. Síðan mundu menn væntanlega geta afgreitt þetta. Þá komum við að öðru vandamáli. Í þessu frumvarpi segir í 16. mgr. 1. gr., með leyfi herra forseta.

„Við stjórnarathafnir forseta Íslands samkvæmt stjórnarskipunarlögum þessum gildir 1. mgr. 13. gr. stjórnarskrárinnar ekki.“ — Hún á bara ekkert að gilda. Er ekkert að marka þessa stjórnarskrá? Getur löggjafarþingið bara tekið hana úr sambandi? Samkvæmt 79. gr. er það ekki hægt. Þannig að þessi grein stenst ekki. Ég mundi nú vilja að forseti Alþingis færi í þetta. Það er auðvelt að laga þetta. — „Þá skal undirritun forseta Alþingis koma í stað undirritunar ráðherra skv. 19. gr. stjórnarskrárinnar.“ — Það sama gildir um þetta og má líka laga það.

Við breytum ekki stjórnarskránni. Við skulum bera virðingu fyrir henni. Líka þeirri sem er í gildi núna þrátt fyrir alla þá annmarka sem ég nefndi hér áðan. Við þurfum að bera virðingu fyrir henni. Við höfum jú svarið eið að henni og hann á að gilda. Það á að hafa í gildi þegar þingmenn sverja eið að einhverju.

Svo er það 79. gr. Ég hef farið ítarlega yfir hana og bent á að rökfræðilega gangi dæmið ekki upp svona. Þótt menn vilji og það sé neyðarástand eða eitthvað svoleiðis. Ekki er þvílík neyð eins og var í haust þegar við samþykktum neyðarlögin. Þá var virkileg neyð, því ef þau hefðu ekki verið samþykkt hefðu bankarnir farið beint á hausinn allt í einu og ekkert greiðslukerfi verið í gangi í landinu. Menn hefðu ekki getað keypt sér neitt í tvær, þrjár, fjórar vikur. Ég veit ekki hversu lengi við hefðum ekki getað keypt neitt. Engar vörur, ekki brauð, smjör, mjólk eða neitt. Ég veit ekki hvernig menn sjá svoleiðis fyrir sér. Ég sé það ekki. Þannig að ég held að það hafi verið virkilega mikil neyð sem rak menn til að ganga á svig við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þ.e. mismuna kröfuhöfum að einhverju leyti. En það er aftur eitthvað sem þarf að skoða.

En að brjóta stjórnarskrána með breytingu á henni þegar ekki er endilega þörf á því. Við gætum — og ég hef lagt það til hér áður í umræðunni og það sýnir hvað ég tek þetta alvarlega — gert það þannig að við samþykktum breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar. Sú breyting færi með kosningum til Alþingis í breytingu þannig að næsta þing sem yrði þá boðað fljótlega í maí mundi strax samþykkja þá breytingu og fara aftur í kosningar, því miður verður að gera það. Þá er búið að breyta stjórnarskránni. Þá gætum við breytt stjórnarskránni með þjóðaratkvæðagreiðslu, sem við mundum gera eftir að stjórnlagaþingið hefði samþykkt hana. Að sjálfsögðu þarf að setja einhver ákvæði um það að í þjóðaratkvæðagreiðslunni sé ekki 21% kjósenda sem kjósa og 11% með stjórnarskránni. Það gengur náttúrlega ekki. Það þurfa að vera lágmarksþátttökumörk og líka það að t.d. meiri hluti þjóðarinnar standi á bak við stjórnarskrárbreytinguna. Það verður að vera eitthvað svoleiðis. Þetta eru praktískir hlutir sem þarf að laga.

Ég hef nefnt hér með tímann og ég ætla að sex mánuðir mundu duga og ég væri mjög ánægður með að sjá það dæmi. Ég tek undir með Eiríki Tómassyni prófessor að ákveðinn vilji er nú til að breyta. Mikil gerjun er í þjóðfélaginu. Hættan er sú að þegar fer að ganga betur, sem gerist væntanlega í haust, muni þessi vilji dofna og löngunin til að breyta stjórnarskránni líka. Þannig að þetta er eiginlega spurning um að nýta núverandi stöðu til að ná fram þessum vilja til að breyta stjórnarskránni og gera það tiltölulega hratt. En það þarf að gerast með þessum hætti.

Svo væri æskilegt að hér væru t.d. líka fulltrúar Vinstri grænna, að eitthvað meira sé á bak við þetta heldur en bara einn flokkur. Ég teldi það æskilegra. Ég sé ekkert að því að menn vinni þetta hratt og nái samstöðu um þetta á þinginu. Það er tími til þess þótt mörg önnur úrlausnarefni bíði reyndar þingsins og spurning hvað lögð er áhersla á. En ég tel þetta vera mjög mikilvægt mál og mjög merkilegt.