136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

starfsemi Byggðastofnunar.

[11:01]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það hafa fleiri en Byggðastofnun verið lens. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson er búinn að vera lens í þessu máli alveg frá því um mitt síðasta ár. Eins og hv. þingmaður veit, af því hann situr í stjórn stofnunarinnar, þá hefur stofnunin ekki getað sinnt hlutverki sínu við það að lána til fyrirtækja á landsbyggðinni um margra mánaða skeið. Ástæðan var ósköp einföld og hv. þingmanni er fullkunnugt um það.

Það var mjög erfitt fyrir þá stofnun, eins og aðrar stofnanir sem sýsla með fjármál hér á landi, að verða sér úti um fjármagn til þess að geta lánað áfram. Það veit hv. þingmaður. Aldrei opnaði hann munninn um það á meðan hann var í stjórn — (Gripið fram í.) ég man ekki eftir því að hv. þingmaður hafi haft áhyggjur af því.

Nú hefur hann áhyggjur af því og það er alveg hárrétt að þetta er þess virði að hafa áhyggjur. Hv. þingmaður spyr mig hvað við ætlum að gera. Ég segi það bara hreinskilnislega við hv. þingmann að þegar stjórn Byggðastofnunar er búin að láta ráðherrann fá nákvæmar upplýsingar þá grípur hann til ráða. En við bíðum eftir því. Hv. þingmaður situr í stjórn stofnunarinnar (Forseti hringir.) og hann á að vita að við vinnum ekki (Forseti hringir.) nema á grundvelli upplýsinga og ég bíð (Forseti hringir.) eftir því að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson (Forseti hringir.) og stjórnin láti mig fá þessar upplýsingar. (Forseti hringir.) Ég vil fá úttekt endurskoðanda míns. Mér dugar ekki svona gaspur (Forseti hringir.) í hv. þingmanni.

(Forseti (GuðbH): Ég vil biðja hæstv. ráðherra að virða tímamörk.)