136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

aðför, nauðungarsala og gjaldþrotaskipti.

322. mál
[15:50]
Horfa

Jón Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit satt að segja ekki hvað hv. þm. Atla Gíslasyni gengur til að halda því fram að ég hafi komið upp áðan til að fjalla um þetta frumvarp af neikvæðni. Það var einmitt ekki það sem ég var að gera. Ég var að benda á ákveðna hluti sem skiptu máli og það er eins og að í hv. þm. Atla Gíslasyni yfirtaki stjórnmálamaðurinn í ræðustól Alþingis og fræðimaðurinn Atli Gíslason verði að lúta í lægra haldi. Ég get ekki séð að það skipti sköpum í því árferði sem hér er hvort aðfararfrestir séu lengdir samkvæmt 5.–8. tölul. 1. gr. eða 10. tölul. 1. gr. þar sem yfir 90% af þeim aðförum sem um er að ræða fara fram samkvæmt öðrum liðum. Þess vegna er þetta bara einhver fegrunaraðgerð og ég benti á það sem skiptir ekki máli varðandi 1. gr. Það er mergurinn málsins.

Ég var að tala um raunhæf úrræði í sambandi við nauðungaruppboð. Ég varaði við því að búa til eina dagsetningu sem um væri að ræða, þ.e. 31. ágúst 2009. Ég benti á aðrar leiðir sem mundu hafa betri og jákvæðari áhrif fyrir skuldara í þessu neyðarástandi en þá sem talað er um í þessu frumvarpi. Þetta frumvarp var ekki nálgast á neikvæðan hátt heldur með jákvæðum hætti. Það er verið að benda hæstv. dómsmálaráðherra á það hvernig mætti gera þetta frumvarp þannig úr garði að það skipti verulegu máli fyrir skuldugasta fólkið í landinu.

Í þriðja lagi benti ég á eitt atriði til viðbótar sem ekki er fjallað um í þessu frumvarpi en sem ríkisstjórnin mætti koma með, það að fella niður réttargjöldin meðan svo háttar til sem nú gerir í þessu þjóðfélagi. Ég neita því að minn ágæti kollega, hv. þm. Atli Gíslason, komi í svona ræðu með svo ófaglegum hætti (Forseti hringir.) að halda því fram að ég hafi komið fram með neikvæðum hætti gagnvart því frumvarpi sem hér er um að ræða.