136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

273. mál
[16:58]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kom ekki inn á einn þátt sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir spurði um og velti líka fyrir sér vegna ræðu minnar um lítil og stór sveitarfélög. Hins vegar erum við að tala hér um íbúa, við erum að tala um kosningabæra menn og við getum vart gert greinarmun á því fyrir kosningabæra menn hvort við búum á Tálknafirði eða í Reykjavík. Ef við ætlum að setja í lög að það þurfi 50% eða 40% hljótum við að horfa til jafnræðis og jafnréttis kjósandans hverju sinni, að hann sé jafngildur í stórum sveitarfélögum sem litlum. Það þarf að gæta þess í II. kafla, 2. gr. Það þarf hins vegar að taka frekar á því hversu oft hægt sé að kalla eftir kosningum samkvæmt þessum lögum en að ætla að mismuna fólki með kosningarrétt sinn eftir því hvort það býr í stóru eða litlu sveitarfélagi.