136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

svar við fyrirspurn.

[10:48]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að í þessari frétt í Morgunblaðinu kom fram að Kaupþing var með 62 bíla í sinni eigu og þar af voru 47 vegna bifreiðahlunninda starfsmanna. Bankinn hefur hins vegar verið á fullu að undanförnu að reyna að losa sig við bílana og hefur nú selt 27 þeirra með 30% afslætti. Hins vegar var ekki sótt um leyfi fyrir sölunni og bílarnir voru ekki auglýstir til sölu og allra síst var haft samband við Ríkiskaup sem selur ríkiseignir og hefur ætíð þá reglu að selja ríkiseignir að undangenginni auglýsingu. Landsbankinn þverskallast enn við að svara, bæði blaðamanni og hv. Alþingi. Það eru algerlega óásættanleg vinnubrögð af hendi stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins að sýna Alþingi þessa óvirðingu. Ég verð að spyrja: Hvað eru menn að fela? Hvað er svona hræðilegt í þessu máli?

Ég þakka fyrir að forseti ætli að fara að beita sér enda get ég ekki trúað því að nýr hæstv. forseti Alþingis, sem hefur einmitt lagt sig fram um það að hafna sínum eigin bifreiðahlunnindum, ætli að sitja undir þessum ótrúlegu vinnubrögðum og sætta sig við að Alþingi sé sýnd slík óvirðing.