136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:49]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Stödd er á landinu nefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem er að taka út stöðuna. Það lá alltaf fyrir, frá því að samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn var gert í nóvember, að eftir þá úttekt yrði tekin ákvörðun um vaxtastigið. Ákvörðun um vaxtastig á þeim tíma var tekin í samkomulagi við þá til að forða algjöru gjaldmiðilshruni, koma í veg fyrir það, og freista þess að koma aftur verði á krónuna bæði með því að hækka vextina og setja miklar hömlur á gjaldeyrisviðskiptin.

Samfylkingin og ríkisstjórnarflokkarnir styðja það báðir eindregið að vaxtalækkunarferli hefjist hið allra fyrsta. Við erum bjartsýn á að strax í kjölfar úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðunni, á samkomulaginu og íslenska efnahagslífinu, hefjist vaxtalækkunarferli, jafnvel innan einhverra fárra daga.

Spálíkön sem unnið er eftir, bæði af fyrri ríkisstjórn og þeirri sem nú situr, eru þau að stýrivextir verði komnir niður í 5–6% í árslok, að vaxtalækkunarferlið sem hefst í febrúar/mars gangi það hratt fram að stýrivextir verði við árslok um 6% og skiptir gríðarlega miklu máli að það gangi eftir. Sama á við um verðbólguna. Þegar verðbólguskotið hefur komið að fullu fram þá mun hún ganga mjög hratt niður.

Ekkert skiptir meira máli til að örva efnahagslífið en að lækka stýrivextina svo að hér verði skaplegt og boðlegt vaxtastig. Það vita það auðvitað allir sem fylgjast með að bölvaldar íslensks efnahagslífs eru aðallega vaxtastigið, gengisflöktið, gengissveiflurnar og verðbólgan sem hér hefur staðið allt of lengi. Þetta er að sliga bæði fyrirtækin og heimilin.

Ég er mjög bjartsýnn á að þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lokið úttekt sinni verði tekin ákvörðun um að lækka vextina. Það tengist því ekkert hver fer fyrir Seðlabanka Íslands. Það er ákvörðun sem verður tekin af bankanum, stjórnvöldum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í samræmi við samkomulagið sem gert var í október síðastliðnum.