136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

sala Morgunblaðsins.

[10:48]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf):

Frú forseti. Okkur hafa borist þær fréttir að það sé búið að selja Morgunblaðið valinkunnum hópi auðmanna, nánar tiltekið öflugum mönnum í íslenskri útgerð. Þá vakna ýmsar spurningar í sambandi við þessa sölu, t.d. hversu mikið var afskrifað af skuldum Morgunblaðsins og ýmsar slíkar spurningar, eins og t.d. hvernig stóð á því að þetta blað var svo lengi rekið áfram með bullandi tapi og algjörlega án nokkurs fjárhagslegs ávinnings fyrir bankann. Í þessu sambandi má glöggt sjá að þegar slíkur hópur kaupir Morgunblaðið, eins og þetta útgerðarfólk gerir, vakna spurningar um það, því að það eru miklar deilur í samfélaginu um kvótakerfið, þjóðinni finnst kvótakerfið ranglátt, ömurlegt og hafa skapað spillingu í þessu landi — þá vakna spurningar um það hvort þetta sé ekki til þess að vekja upp enn frekari hugsanir um meiri og meiri spillingu þegar slíkur hópur manna sem ég vil annars ekki segja neitt ljótt um eignast slíkan fjölmiðil (Gripið fram í.) og getur haldið til streitu eða komið sínum sjónarmiðum og viðhorfum fram með þessum fjölmiðli án þess að aðrir hafi aðgang að.