136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:04]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég lýsti því í ræðu minni að ég treysti mér ekki með þeim litla fyrirvara sem við hefðum hér til að leggja þannig mat á þessa breytingartillögu að hún hefði nákvæmlega þau áhrif sem hv. þingmaður nefndi að hún væri til fallin, þ.e. að auka fjármálastöðugleikann. Ég hefði, og það er það sem ég kallaði eftir, viljað að kallaðir væru til sérfræðingar og nefndi einmitt álit prófessors Jóns Daníelssonar á þessu ákvæði. Þetta er ekki spurning um hvort það sé gott að við aukum og bætum fjármálastöðugleikann, um það eru allir hv. þingmenn sammála. Það sem hér er um að ræða er útfærslan, hvernig þessir hlutir eru gerðir, hvernig bankinn starfar, hvernig upplýsingar innan bankans eru unnar og hver það er sem á að gefa út slíkar viðvaranir og hvernig með er farið. Það eina sem ég hef verið að kalla eftir er að við hefðum fengið álit sérfræðinga á þessu sviði á þessu ákvæði. Sérfræðinga sem gætu metið hvort hvort sá tilgangur náist sem hv. þingmaður nefndi sem er að auka fjármálastöðugleikann, að auka möguleika bankans til að vara við ef hann telur að það þurfi, hvort þetta væri best gert með þessu ákvæði og hvort það orðalag sem hér er um að ræða og það verklag sem lagt er upp með, sé heppilegt eða ekki.

Það var ekki annað sem fyrir mér vakti en að kalla eftir þessu og vekja athygli á viðvörunarorðum manna sem hafa getið sér góðs orðs á þessu sviði og hafa með mikla þekkingu á því. Þegar þeir hafa varað okkur við þessari nálgun þá eigum við að hlusta og við eigum að skoða vel okkar gang. Það var það sem ég vildi koma til skila í ræðu minni.