136. löggjafarþing — 89. fundur,  26. feb. 2009.

þingsköp Alþingis.

315. mál
[18:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að bregðast aðeins við því sem fram kom í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, þ.e. sem hann nefndi um trúnaðarstörf í þinginu, formennsku í nefndum og væntanlega á það við varaformennsku sömuleiðis.

Ég er þeirrar skoðunar að ákvæði um það eigi að vera bundið í þingskapalögin, að trúnaðarstörf, til dæmis forusta í nefndum eigi að skiptast á þingflokka í hlutfalli við það fylgi sem þeir fá í kosningum. Það á ekki að vera eins og var hér áður þegar það var reynt að stjórnarandstaðan færi með formennsku í einhverjum nefndum, að það væri nánast þannig að hún væri að þiggja það góða boð stjórnarmeirihlutans hverju sinni að taka við forustu í nefndum. Þetta er sjálfsagður réttur vegna þess að kjósendur, óháð því hvaða flokk þeir kjósa, eiga sama rétt inn á löggjafarsamkomuna. Þess vegna finnst mér að það eigi að binda það í þingskapalögin og tek undir með hv. þingmanni hvað þetta snertir. Þetta ætti þess vegna að koma inn í sjálf þingskapalögin en ekki bara vera samkomulagsatriði hverju sinni þannig að minni hlutinn eða stjórnarandstaðan sé upp á náð og miskunn meiri hlutans í hverju tilviki fyrir sig.

Sömuleiðis væri þá nefndarsætunum öllum, heildarfjölda nefndarsæta, skipt eftir hlutfalli. Það gerist nefnilega með hlutfallskosningu í hverja nefnd fyrir sig að stjórnarmeirihlutinn getur fengið og fær iðulega fleiri sæti en hann ætti rétt á ef eingöngu væri miðað við hlutfallið sem hann fær í kosningum hverju sinni. Þetta þyrfti líka að gera.

Varðandi síðan fækkun ráðuneyta sem þingmaðurinn kom inn á þá er ég þeirrar skoðunar að það sé ekki sjálfgefið að nefndaskipan á löggjafarsamkomunni endurspegli ráðuneytisskiptinguna. Af hverju á það að vera þannig að ef mönnum dettur í hug að breyta ráðuneytisskipaninni, eins og hér var gert síðast, að þá þurfi endilega að breyta þingnefndunum? Má ekki löggjafarsamkoman skipuleggja sín störf eftir því sem henni hentar (Forseti hringir.) burt séð frá því hvað hentar í ráðuneyti og einstökum ríkisstjórnum hverju sinni?