136. löggjafarþing — 90. fundur,  2. mars 2009.

staða landbúnaðarins.

[16:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fagna þessari umræðu um stöðu landbúnaðarins sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur vakið. Ánægjulegt er að heyra að mikill samhljómur er meðal þeirra sem hér hafa talað um mikilvægi þess að standa vörð um landbúnaðinn og vel við hæfi að hér skuli vera búnaðarþing með kjörorðunum Treystum á landbúnaðinn.

Þessi atvinnugrein, eins og aðrar, hefur búið við versnandi skilyrði vegna bankahrunsins og efnahagsumhverfisins hér. Við höfum líka vitað af því að í alþjóðlegum viðskiptum hafa komið fram tillögur og samningar í framhaldi af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu, svo sem umræða um hrátt kjöt og innflutning á kjöti og óhætt er að segja að engin ástæða er til annars en tryggja þær varnir og beita þeim heimildum sem tiltækar eru til að verja hreinleika landbúnaðarafurða okkar og sjá til þess að við getum áfram framleitt hágæðavörur fyrir íslenska neytendur. Sérstaklega ánægjulegt er að þetta skuli koma fram frá þeim flokkum sem hafa flutt málið, því þetta kjötfrumvarp kom úr skúffu hæstv. fyrrverandi landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins og var svo endurflutt af hæstv. landbúnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Það sem mig langar til að gera að umtalsefni eru áhyggjur mínar af þeirri afstöðu sem Bændasamtökin hafa tekið varðandi aðild að Evrópusambandinu. Það eru vonbrigði að sjá að samtökin skuli ekki hafa valið þann kost að skilgreina samningsmarkmiðin og setja fram þau skilyrði sem þarf að ná til að slík aðild komi til greina. Íslenskir bændur þurfa á því að halda, eins og aðrir, að hér verði afnumin verðtrygging, okurvöxtum létt af, hér verði stöðugleiki og fast gengi. Öllu þessu getum við náð með aðild að (Forseti hringir.) Evrópusambandinu og því skiptir miklu máli að það verði á dagskrá á næstunni en til þess þurfa Bændasamtökin auðvitað að koma og skilgreina hvaða skilyrði þarf að uppfylla til (Forseti hringir.) að við getum gengið þar inn.