136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Enn og aftur standa sjálfstæðismenn upp hver af öðrum hér í þingsal til að reyna að hvítþvo sig af fortíðinni. Staðreyndin er nefnilega sú að með því að benda á Samfylkinguna er verið að breiða yfir það sem Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki horfast í augu sem við er að eitt stærsta vandamál okkar á Íslandi í dag er gjaldeyriskreppa. Það er gjaldmiðilsvandi. Hvernig hefur Sjálfstæðisflokkurinn svarað þeim spurningum? Hann hefur svarað þeim með því að benda á aðra.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki viljað ræða Evrópusambandið og skellt skollaeyrum við því að við erum í gjaldeyrisvanda og þurfum að ræða upptöku nýs gjaldmiðils. Eina raunhæfa lausnin í því sambandi er aðild að Evrópusambandinu með upptöku evru. Þannig leysum við þau mál til framtíðar. Sjálfstæðisflokkurinn varð uppvís að því að líta til skammtímasjónarmiða í gjaldmiðilsmálum eins og í efnahagsmálum almennt. Við stöndum nú frammi fyrir þeim vanda og afleiðingum hans, það er 18% verðbólga á ársgrundvelli, það eru 18% stýrivextir, heimili og fyrirtæki í landinu eru í miklum vanda. Það þýðir ekki að benda á Samfylkinguna og ábyrgð hennar í þá 18 mánuði sem hún sat í ríkisstjórn. Ég get alveg viðurkennt að stærstu mistök Samfylkingarinnar voru að fara í þessa ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, sem sló umræðunni um aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru á frest. Um það erum við sek, að hafa tekið þátt í frestun á þeirri umræðu með því að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þetta er stóra málið í dag að svara því hvernig við ætlum að koma Íslandi út úr gjaldeyriskreppunni (Forseti hringir.) sem er hinn stóri vandi heimila og fyrirtækja á Íslandi í dag.