136. löggjafarþing — 91. fundur,  3. mars 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[14:26]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Nú líta loks dagsins ljós nokkur af þeim frumvörpum sem hæstv. ríkisstjórn hefur boðað og ekki seinna vænna þar sem þingrof er skammt undan.

Ríkisstjórnin ætlaði sér að láta verkin tala. Ríkisstjórnin ætlaði sér að vinna að verkefnum sem mættu verða til þess að leysa þau gríðarlegu erfiðu verkefni sem blasa við í efnahagsmálum, atvinnumálum og í málefnum fjölskyldnanna í landinu. Þetta eru málin sem ég vonaðist eftir að yrðu á dagskrá þá 83 daga sem hin nýja ríkisstjórn starfaði. Því beið ég með eftirvæntingu eftir því að sjá hvernig hin nýja ríkisstjórn ætlaði að endurreisa bankakerfið, hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlaði að stuðla að því að við gætum komist út úr kreppuástandinu sem allra fyrst.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum. Í fyrsta lagi eru afar fá mál komin fram og þau sem hafa komið fram eru ekki endilega þau mál sem maður vildi sjá, sem ég trúi að íslenska þjóðin hefði viljað sjá.

Hæstv. ríkisstjórn sendi frá sér þann 1. febrúar 2009, fyrir ríflega mánuði, svokallaða verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Að hrinda í framkvæmd brýnum og mikilvægum aðgerðum, einkum í þágu heimila og atvinnulífs, til endurreisnar bankakerfisins.“ Og fleira.

Verkefnaskráin er svolítið loftkennd. Hún tilgreinir fyrirætlanir í sjö liðum. Af gefnu tilefni og því tilefni að loks fáum við að sjá frumvörp langar mig að nota tækifærið og rifja upp það sem fram kemur í umræddri verkefnaskrá.

Fyrsti liður af sjö hefur yfirskriftina: Aukið lýðræði, jöfnuður og upplýsingar. Þar er kveðið á um að hæstv. ríkisstjórn muni stuðla að því að hafa virka upplýsingagjöf til íslensku þjóðarinnar um stöðu landsmála og aðgerðir til að rétta efnahagslífið af.

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að ég heyri svo lítið frá þessari ríkisstjórn um hvað verið er að gera til þess að tryggja það að við vitum hvaða aðgerðir eru í gangi. Annars vegar vonbrigði með að vita ekki hvað er að gerast og hins vegar með að maður skuli ekki fá upplýsingar. Sérstaklega er boðað víðtækt samstarf við sveitarfélög, aðila vinnumarkaðarins og almenning í landinu. Í þessum fyrsta lið er líka fjallað um eftirlaunalögin, siðareglur, stjórnlagaþing, kosningar og lög sem ég efast um að komi okkur endanlega út úr þeim bráðavanda sem við erum í. En a.m.k. er þessi fyrsti liður loftkenndur.

Annar liður: Endurreisn efnahagslífsins. Rýrasti liðurinn í verkefnaskránni, telur örfáar línur. Þar er talað um að gert verði ráð fyrir að vinna áfram með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sem betur fer, segi ég. En auðvitað má vera ljóst að við vorum komin af stað með þá vinnu og þurfum að klára það verkefni.

Í öðrum lið er líka sérstaklega talað um að kynna áætlunina vel gagnvart almenningi. Virðulegi forseti. Ég hef ekki orðið vör við sérstaka kynningu á aðgerðum í tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og verkefni sem því tengjast. Ég hef ekki sem sagt orðið vör við að það hafi verið kynning á þessum áætlunum gagnvart almenningi og ég sakna þess.

Í þriðja lagi er talað um endurskipulagningu í stjórnsýslunni, skipulagsbreytingar í stjórnkerfinu til að tryggja markvissa framkvæmd efnahagsaðgerða stjórnvalda og endurnýjað traust á fjármálakerfið í landinu. Þar er sérstaklega kveðið á um að skipta um yfirstjórn í Seðlabanka sem þegar hefur verið gert og að endurskoða peningamálastefnuna.

Fjórði liður verkefnaskrárinnar fjallar um aðgerðir í þágu heimilanna. Þar er talað um markvissar aðgerðir til að bregðast við fjárhagsvanda heimila í landinu í virku samráði við hagsmunaaðila. Að sett verði á stofn velferðarvakt og sú velferðarvakt vinni í samvinnu við hagsmunaaðila og muni gera tillögur um aðgerðir. Það er talað um skuldavanda heimilanna, lög um séreignarsparnað, húsnæðislán sem færð verði yfir í Íbúðalánasjóð og fleira.

Í fimmta lagi er í verkefnaskránni talað um aðgerðir í þágu atvinnulífsins. Þar er talað um að beina framkvæmdum opinberra aðila í verkefni sem eru þjóðhagslega arðbær og krefjast mikillar vinnuaflsþátttöku. Þar er boðað átaksverkefni til að vinna gegn atvinnuleysi. Þar er sérstaklega kveðið á um jafnrétti kynjanna, að það verði haft að leiðarljósi í endurreisn íslensks efnahagslífs. Þar kemur tenging við það frumvarp sem nú er til umræðu, að vísu.

En mér finnst þetta vera hliðarlína í stóru myndinni. Sem þingmaður á ég mjög erfitt með að sætta mig við að hæstv. ríkisstjórn og virðulegi hæstv. bankamálaráðherra skuli koma með þetta frumvarp fyrst á borðið, sá þingmaður sem hér stendur hafði vænst þess að við værum að útfæra tillögur Mats Josefssons um endurreisn bankakerfisins. Að við værum að skoða raunhæfar aðgerðir vegna þess að — guð má vita það og við vitum það öll að þegar kemur að kosningum, og það er mjög skammt í kosningar, þá mun sú ríkisstjórn sem tekur við þurfa sinn tíma til þess að setja sig inn í verkefnin. Hér er því verið að tefja framganginn sem við byrjuðum á í kjölfar bankahrunsins. Og ég er ansi hrædd um að við séum að tafsa þegar við tölum um kynjajafnrétti. Ég ætla að tala aðeins um það á eftir. En þetta kemur fram í verkefnaskránni.

Í sjötta lagi kemur fram í verkefnaskránni liður sem kallast aðgerðir til að byggja upp fjármálakerfið og greiða úr vanda fyrirtækjanna. Verðugt verkefni en þar kemur fram að ríkisstjórnin muni sjá til þess að fjármálastofnanir gangi hratt og örugglega til verks við að greiða úr vanda lífvænlegra fyrirtækja á grundvelli gegnsærra og alþjóðlegra viðurkenndra reglna. Það hefði verið draumurinn að fá hér frumvarp sem tæki á þessu máli. Það er gert ráð fyrir því að ríkisstjórnin muni setja nýju bönkunum útlánamarkmið vegna ársins 2009 og til að örva hagkerfið.

Æ, æ. — Sjöundi liður og síðasti. Þar er talað um alþjóðasamninga og Evrópusamstarf. Tekið verði saman yfirlit um lántökur og heildarskuldir þjóðarbúsins og það kynnt almenningi. Þetta hef ég ekki séð gert af hæstv. núverandi ríkisstjórn. Ég bendi á að umræðan í samfélaginu gengur svolítið út á að skuldir samfélagsins, íslensku þjóðarinnar, séu einhvers staðar á bilinu 500 milljarðar til 2.500 milljarðar. Sumir fara jafnvel aðeins lengra og segja 3.000 milljarðar.

Við sem þekkjum þessar tölur kannski aðeins betur en gengur og gerist, við höfum alla vega fjallað töluvert um þessar tölur, við gerum okkur grein fyrir því að það er ýmist verið að tala um brúttó eða nettóskuldir. En þessi umræða er mjög á reiki og það veitir ekki af að almenningur fái upplýsingar eins og talað er um í verkefnaskránni.

Talað er um að fengnir skuli alþjóðlegir sérfræðingar til að veita aðstoð við samninga á alþjóðavettvangi. Nú veit ég ekki hvort það hefur gerst. Að Evrópunefndin ljúki störfum og svo kemur fram í lokin að það verði ekki gengið í ESB og slík aðild verði ekki ákveðin nema í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta er nú þessi merkilega verkefnaskrá sem ég ætla að leyfa mér að kalla loftkennda, í 83 daga ríkisstjórn, sem vitað er nokkurn veginn fyrir fram að muni starfa svo lengi. Það hefði verið skynsamlegra að hafa heldur einn lið en sjö. Það hefði verið skynsamlegra að einhenda sér í verkefni sem hefðu tryggt að fyrirtækin, störfin og heimilin gætu haldið áfram. Ég vildi óska þess að við Íslendingar bærum gæfu til þess að stjórnvöld einblíndu á þau verkefni sem tryggja velferð atvinnulífs og heimila í landinu.

Það þarf að tryggja að hér starfi bankakerfi sem getur stutt við uppbyggingu atvinnulífsins. Hreint og klárt bankakerfi sem veitir lán og fyrirgreiðslur þannig að halda megi uppi atvinnustiginu. Við þurfum að byrja upp á nýtt í einhverjum skilningi og við getum ekki beðið. Við getum ekki beðið eftir kosningum. Við getum ekki beðið eftir því að mánuðir líði í viðbót án þess að við klárum þetta mál. Því miður tel ég að kosningar í vor séu ekki gæfuspor fyrir þjóðina, því á ríflega sex mánuðum munum við sjá þriðju ríkisstjórnina taka við. Þetta er ekki gæfulegt fyrir þjóðina.

Ég hef miklar efasemdir um núverandi ríkisstjórn. (VS: Er hún nú ekki skárri?) Ég hef mínar efasemdir um hana. Ég hef efasemdir um að ríkisstjórnin hafi getu og tíma til að leysa þau brýnu verkefni sem við blasa. Tíminn var afmarkaður, það var nokkuð ljóst fyrir fram.

En ef við erum raunsæ þá má segja að hún hefði átt að velja sér færri markmið og einbeita sér að efnahagsmálunum og endurreisn bankakerfis og atvinnulífs. Því án bankakerfis geta fyrirtækin ekki starfað eðlilega. Og starfi fyrirtækin ekki eðlilega þá er viðbúið að atvinnuleysi aukist enn frekar og við slíkar aðstæður blasir við gjaldþrot heimila landsins. Málið er ekki flókið. Það þarf kjark og áræði, frumkvæði og festu til að ganga í þau mál sem skipta þjóðina mestu um þessar mundir.

En þá að því frumvarpi sem hér er til umræðu, breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög. Frumvarpið snýr, eins og kunnugt er, að eignarhaldi, kynjahlutföllum og starfandi stjórnarformönnum. Í góðu árferði væri ég fyrst til að fagna frumvarpi sem þessu og umræðu um það. Vandinn er að við lifum hvorki í góðu árferði né í hefðbundnu árferði og því er vafasamt að þetta sé skynsamlegt sem fyrsta frumvarp viðskiptaráðherra til þess að fara í.

Ég fagna auðvitað umræðu um aukið gagnsæi í rekstri hlutafélaga og einkahlutafélaga. Það er algjörlega nauðsynlegt að sú umræða fari fram. (Gripið fram í.) Aftur sný ég mér að forgangsröðinni og ég segi að það er ekki forgangsmálið einmitt núna. Kannski eftir fjóra mánuði.

Sömuleiðis fagna ég umræðu um kynjahlutföll í stjórnum, í framkvæmdastjórnum félaga og yfir höfuð umræðu um kynjahlutföll í atvinnulífinu. Ég er ein þeirra sem trúa því að það verði viðskiptalífinu til farsældar að konur sitji í auknum mæli í stjórnum og stýri fyrirtækjum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að félögum sé gert að upplýsa um kynjahlutföll og ég tel það vera af hinu góða.

Það var ákveðin nefnd sem var sett á laggirnar undir forustu hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, núverandi hv. þingmanns, sem skoðaði sérstaklega og skilaði áliti um starfandi stjórnarformenn. Það er alveg augljóst að það er margt í því sem þarf að ræða frekar og ég hlakka til að taka þátt í þeirri umræðu.

Í lokin langar mig að víkja í örstuttu máli að nefndinni sem Mats Josefsson hefur stýrt um endurreisn bankakerfisins. Ég hefði gjarnan viljað sjá skref í þá veru að við værum að tala um að framkvæma eitthvað í áttina að því að endurreisa bankakerfið. Ég álít að þær hugmyndir sem komu fram í fyrstu skýrslu Mats Josefssons og nefndar undir hans stjórn, sem skilað var 11. febrúar, séu loftkenndar hugmyndir. Það er engan veginn hægt að sjá hvernig best er að útfæra þær hugmyndir af þeim gögnum sem komu fram og þar af leiðandi tel ég að þessar hugmyndir séu ekki nógu góðar og þær þarfnist umræðu í þinginu. Þetta er kjarni málsins. Við þurfum að reisa við bankakerfið til að stuðla að því að hér haldi áfram heilbrigt atvinnulíf. Að hér sé áfram atvinna fyrir fólkið í landinu þannig að það geti áfram hugað að sínu fólki og uppbyggingu samfélagsins.