136. löggjafarþing — 93. fundur,  4. mars 2009.

stjórnarskrárbreytingar og stjórnlagaþing.

295. mál
[14:46]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Ég get ekki orða bundist í þessari umræðu. Ég verð að taka það fram að mér finnst mjög undarlegur bragur á því af hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þegar verkefnin eru svo mörg í landinu sem snúa að heimilum og fyrirtækjum, að nýta tímann hér í að gera breytingar á stjórnarskránni án þess að hafa haft um það fullnægjandi samráð við aðra flokka og flokka í stjórnarandstöðu. Koma svo með mál inn í þingið þar sem rætt er um að setja á fót sérstakt stjórnlagaþing sem á að taka stjórnarskrána til endurskoðunar en hafa engu að síður á líftíma minnihlutastjórnarinnar reynt að þröngva hér í gegn öðrum breytingum á stjórnarskránni sem mér finnst vera fullkomlega óþarfar á þessum tímapunkti þegar ætlunin virðist vera sú að setja á fót sérstakt þing til að sjá um þessa þætti. Ég held að almenningur í landinu geti ekki með nokkru móti skilið hvað er á ferðinni á hinu háa Alþingi þegar ríkisstjórnin leggur meira kapp á það (Forseti hringir.) að gera breytingar á stjórnarskránni í andstöðu við stjórnarandstöðuna í stað þess að sinna þeim brýnu verkefnum sem ég hélt að ríkisstjórnin ætlaði að einhenda sér í.